132. löggjafarþing — 63. fundur,  9. feb. 2006.

Stefnumótandi byggðaáætlun 2006--2009.

391. mál
[15:40]
Hlusta

Hlynur Hallsson (Vg):

Frú forseti. Við ræðum um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2006–2009. Ég er hér með þykka og mikla skýrslu upp á 71 blaðsíðu og einar sjö síður auðar þar á eftir.

Mér þykir miður að hæstv. iðnaðarráðherra, sem svo vill reyndar til að er einnig hæstv. ráðherra byggðamála, er ekki í þingsalnum vegna þess að ég ætlaði að hrósa henni aldrei þessu vant. Hæstv. iðnaðarráðherra sagði nefnilega á NFS í gær í miklu hátíðaskapi að einhvern tíma yrði jafnvel hætt að reisa álver á landinu. Þetta þykir mér mikil stefnubreyting og til góðs að heyra það frá sjálfum iðnaðarráðherranum að það er einhvers staðar ljós við endann á þeim göngum sem núverandi ríkisstjórn er föst í, því miður.

Það er dálítið merkilegt við þessa byggðaáætlun vegna þess að ríkisstjórnin hreykir sér oft af því að stærsta aðgerð í byggðamálum sé einmitt álverið mikla sem verið er að reisa við Reyðarfjörð og stíflan ógurlega við Kárahnjúka. Sem betur fer er ekkert minnst á hana í byggðaáætlun né önnur álver eða annan handstýrðan þungaiðnað eða tæki til að hella yfir landsbyggðina. Nei, byggðaáætlunin er alveg hreint ágæt og eins og hv. þm. Þuríður Backman kom inn á í ræðu sinni fyrr í dag gæti margt úr byggðaáætluninni verið beint upp úr stefnuskrá Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. — Ég fagna því að hæstv. ráðherra byggðamála er komin í salinn því að það er ekki á hverjum degi sem það er tækifæri til að hrósa ráðherranum.

Ég tók einmitt með mér hingað upp tvær þingsályktunartillögur frá þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Annars vegar um aðgerðir til stuðnings atvinnurekstri í smáum og meðalstórum fyrirtækjum, sem er afar gott mál og þar koma fram býsna merkilegar staðreyndir. Til dæmis að 70% nýrra starfa í almennu atvinnulífi verða til í nýjum smáfyrirtækjum eða litlum og meðalstórum fyrirtækjum í rekstri. Ekki verða nefnilega öll störfin til í stóru álverunum sem verið er að plana úti um allt, nú síðast í Straumsvík, rétt handan við mörk Reykjavíkursvæðisins, en auðvitað á höfuðborgarsvæðinu enn þá. Það telst því ekki mikið byggðamál.

Í þingsályktunartillögu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs er bent á að laga þurfi aðgang smáatvinnuvega að fjármagni og nauðsynlegri fjármálaþjónustu. Eitt af því sem háir litlum fyrirtækjum sem eru að fara af stað, hugvitsmönnum og brautryðjendum, er allur reglugerðafrumskógurinn, kostnaður og hindranir sem torvelda alla uppbyggingu. Þar eru tillögur um að hugað verði að skattalögum og öðrum þáttum sem marka starfsskilyrði atvinnurekstrar með sérstöku tilliti til smáfyrirtækja. Margt smátt gerir eitt stórt. Huga ætti að stöðu sjálfstætt starfandi einstaklinga og einyrkja í atvinnurekstri.

Það hefur verið áberandi í seinni tíð að frumkvæði í atvinnumálum kemur oft frá konum og ekki síst í stofnun nýrra fyrirtækja og smáfyrirtækja, þar sem konur með útsjónarsemi sinni eygja tækifæri í viðskiptum sem aðrir hafa ekki komið auga á eða áður nýtt sér. (Gripið fram í: Karlar.) Já, einmitt, karlar. Þetta á sérstaklega við í ferðaþjónustu, t.d. menningu og listum, handverks- og smáiðnaðarframleiðslu, ráðgjafarþjónustu og framleiðslu á snyrtivörum, lyfjum og heilsuvörum. Við þekkjum mörg dæmi um þetta án þess að ég ætli að fara að telja upp þau fjölmörgu litlu en blómlegu fyrirtæki sem hafa verið sem betur fer að dafna, þrátt fyrir afleitar aðstæður, t.d. í gengismálum, sem er auðvitað bein afleiðing af stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar. En þessi litlu fyrirtæki eiga oft erfiðara með að klífa yfir þá þröskulda sem stórfyrirtæki og stærri aðilar eiga kannski auðvelt með að yfirstíga. Í reglugerðum hafa yfirleitt stórir aðilar og smáir verið settir undir sama hatt þó að ljóst sé að aðstæður allar og úrlausnarefni séu gerólík eftir því hvort í hlut á nýstofnað smáfyrirtæki eða rótgróið og þekkt stórfyrirtæki með milljarða veltu.

Ég er hérna með aðra tillögu til þingsályktunar frá þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – grænu framboði. Þar er fjallað um sjálfbæra atvinnustefnu. Það er eitthvað sem ríkisstjórnin hefði átt að fara enn þá betur yfir þó að nokkrir punktar séu teknir upp í þessari byggðaáætlun, og er það vel, ber að fagna því sérstaklega. En í þessari tillögu til þingsályktunar er fjallað um sjálfbæra atvinnuþróun á Íslandi með hliðsjón af Dagskrá 21 og Staðardagskrá 21 og gerðar tillögur um að vinna að framgangi hennar stig af stigi. Þarna er t.d. bent á að skapa þarf nýjum atvinnugreinum á sviði þekkingar og tækni í umhverfismálum hagstæð vaxtarskilyrði og efla þannig atvinnulíf og fjölbreytni þess. Þetta hefur verið gert með góðum árangri, t.d. í Kanada og Norður-Noregi. Við þurfum ekki að horfa lengra til að sjá hvernig hægt er að gera hlutina með góðum árangri. Því miður er ríkisstjórnin hins vegar föst í því að fæla burt fyrirtæki í hátækniiðnaði. Við þekkjum það að Flaga og Marel hafa verið að flytja störf úr landi. Einfaldlega vegna þess að gengið er svo hátt skráð að fyrirtækin telja hag sínum betur borgið annars staðar. Á sama tíma er Kanada að leggja alla áherslu á að lokka til sín fyrirtæki. Sýnt hefur verið fram á að vöxturinn í hátæknigreinum er margfaldur á við stóriðjuna eða þungaiðnaðinn. Sem betur fer eru menn að átta sig betur og betur á þessu og nú síðast málsmetandi menn eins og Ágúst Guðmundsson, formaður stjórnar Bakkavarar. Hann hefur verið að segja að þessi ofuráhersla stjórnvalda á þungaiðnað í landinu gangi ekki lengur. Það er mjög ánægjulegt að maður eins og Ágúst taki undir með málflutningi okkar í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði. Ég veit vel að hæstv. iðnaðarráðherra lokar stundum eyrunum þegar við vinstri græn tökum til máls og reynum að benda henni á hluti sem má bæta. En ég er vongóður um að hún hlusti þó a.m.k. á forsvarsmenn í atvinnulífinu. Ég veit ekki hvar við erum stödd ef hún lokar eyrunum einnig fyrir málflutningi þeirra.

Í þessari tillögu til þingsályktunar um sjálfbæra atvinnustefnu er bent á að taka þurfi upp græna skatta stig af stigi í staðinn fyrir núverandi skattheimtu. Það á að draga úr núverandi skattheimtu en leggja á umhverfisgjöld til að ýta undir sjálfbær framleiðsluferli og örva endurnýtingu. Draga úr sorpmyndun með því að flokka og endurnýta sorp og lífrænan úrgang. Það er nú byrjað að gera þetta sem betur fer í smáum mæli, það er þó vísir að því sem koma skal, en ýta þarf undir þetta. Það þarf að hjálpa þarna til vegna þess að það skiptir mjög miklu máli, ekki bara fyrir umhverfið, heldur fyrir þjóðfélagið allt og jafnvel hagvöxtinn líka.

Jafnframt er bent á að styrkja þurfi byggðir landsins með fjölgun starfa og fjölbreyttari atvinnutækifærum á sviði umhverfis- og náttúruverndar. Síðan er í greinargerðinni nefnt að hægt er að setja sér takmark, eins og t.d. að draga úr sorpmyndun um að minnsta kosti 5% á ári næstu fimm árin. Þetta eru háleit markmið vegna þess að í rauninni er þróunin akkúrat í hina áttina. Við erum alltaf að búa til meira og meira sorp í þessu umbúðaþjóðfélagi sem við búum í.

Í greinargerðinni er t.d. sagt frá því, og af því ég er að tala um sorp er það líka allur úrgangur frá fiskvinnslu, að frárennsli frá allri fiskvinnslu á Akureyri mundi duga til að framleiða lífrænan áburð fyrir 10–15% af ræktuðu landi í Eyjafirði. Og dæmið með Eyjafjörð er nefnt vegna þess að þar með gætum við líka sparað flutningskostnað. Stutt að fara. Þessi áburður hefur þann stóra kost, umfram húsdýraáburð, að í honum eru engin óæskileg fræ, hvorki illgresisfræ né önnur. Ef Íslendingar mundu nú tileinka sér þessa vistvænu hreinsitækni væri stærsta hindrunin fyrir þróun lífræns landbúnaðar hér á landi úr sögunni. Lífrænn landbúnaður er auðvitað það sem koma skal, frú forseti. Þar eigum við nefnilega mjög mikla möguleika, gríðarlega möguleika. Það er ekki aðeins að landbúnaðurinn verði stundaður í meiri sátt við náttúruna en gengur og gerist, heldur mundi markaður fyrir lífrænt vottaðar vörur stækka mjög mikið. Bent er á að t.d. í Þýskalandi telja 70% neytenda lífrænt ræktaðar matjurtir hollari en aðrar matjurtir og þarlendir framleiðendur anna ekki eftirspurn. Markaðurinn fyrir lífrænt ræktaðar matjurtir í Evrópu hefur vaxið gríðarlega á síðustu árum og á eftir að halda áfram að vaxa jafnvel þó að fólk sé að borga allt upp í 100% hærra verð fyrir slíka vöru. Þarna erum við að auka verðmæti vörunnar sem við framleiðum og möguleikar fyrir útflutning opnast. Vissulega þarf marga þætti til að hrinda þessu í framkvæmd. Við höfum heitt vatn, við höfum ódýra orku sem því miður er seld allt of dýru verði, t.d. til grænmetisbænda. Til dæmis borga grænmetisbændur fimmfalt verð á við það sem álverin borga. Það er ekki bara 50% hærra verð, eða 100% hærra verð, það er 500% hærra verð. Samt eru þeir miklir raforkukaupendur.

Einnig er sagt frá því að Danir flytji inn sem svarar 30% af seldri lífrænni matvöru í landinu. Hlutfallið er enn þá hærra í Bretlandi. Þar er það um 70% og þetta eru okkar næstu markaðir. Við eigum því mikla möguleika. Í ferðaþjónustunni eigum við einnig mjög mikla möguleika. Við vitum öll að það er vonlaust að ætla að fara saman með einhverjar stóriðjur, þungaiðnað, og á sama tíma að vera selja Ísland sem hreinasta land í heimi. Ferðamennirnir eru nefnilega ekki að koma hingað til að skoða álver og virkjanir. Nei, ferðamenn koma hingað og borga fyrir það hátt verð til að sjá náttúru, ósnortna náttúru og menningu. Það er ekki sól og veðurblíða sem dregur þetta fólk hingað. Og ekki er það þungaiðnaðurinn. (Iðnrh.: Hann er léttur. Álið er létt.) Álver flokkast undir þungaiðnað og skiptir ekki máli hvort málmurinn sjálfur sé sérstaklega léttur. (MÞH: Það er efnafræði.) Það er efnafræði. Auðvitað væri hægt að létta þessa umræðu aðeins með allt annarri efnafræði. En ég sé að tími minn er að verða búinn, ég var reyndar rétt að byrja. En sem betur fer get ég skráð mig aftur á mælendaskrá og þá ætla ég að fara ítarlega ofan í þessa byggðaáætlun og skýrsluna líka um framvindu byggðaáætlunar frá 2002–2005. Það er öllu þynnri skýrsla en alveg þess virði að kíkja á líka þó hún sé ekki alveg eins bjartsýn og lofi eins góðu og hin.