132. löggjafarþing — 63. fundur,  9. feb. 2006.

Stefnumótandi byggðaáætlun 2006--2009.

391. mál
[16:11]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel að það sé ekki rétt sem kom fram hjá hv. þingmanni, að fólk vilji ekki búa úti á landi. Fólk vill einmitt búa úti á landi. Hins vegar þurfa að vera til þess aðstæður. Fólk þarf að hafa atvinnu og það höfum við lagt okkur fram um að bæta með því að gera atvinnulífið fjölbreytilegra. Hv. þingmaður getur ekki verið mjög stoltur af flokki sínum hvað það varðar. Frjálslyndi flokkurinn studdi hvorki Kárahnjúkavirkjun né álver á Austurlandi þannig að ekki lagði hann gott til málanna í þeim efnum.

Hvað varðar íbúaþróun á Austurlandi þá veit ég ekki hvernig hún stendur nákvæmlega núna. En ég veit að það verða til milli 800 og 900 störf þegar álverið verður tekið í notkun, þ.e. með afleiddum störfum. Nánast allir Austfirðingar hafa áhuga á að vinna í því fyrirtæki þannig að það er mjög jákvætt.

Það er í sjálfu sér auðvelt að koma upp, eins og hv. þingmenn hafa gert í stórum stíl — líka sá sem síðast talaði þótt hann hafi komið inn á jákvæðar nótur örlítið í lok ræðu sinnar — með eintómt niðurrif. Það kemur ekki ein tillaga frá stjórnarandstöðunni um hvað sé hægt að gera, ekki ein einasta. (MÁ: Láttu ekki svona.) Ég held að það sé mikilvægt fyrir þessa þjóð að a.m.k. þessir flokkar skuli ekki hafa völd í landinu. Það er algjörlega öruggt.

Hv. þingmaður nefndi Vestmannaeyjar og að þar væru erfiðleikar. Það veit ég vel enda hef ég beitt mér fyrir því að vinna að vaxtarsamningi fyrir Suðurland, með sérstakri áherslu á Vestmannaeyjar. Þess var sérstaklega getið þegar sá samningur var undirritaður að ég hefði brugðist fljótt við og fólkið þar var þakklátt fyrir það.

Ég ítreka að það er auðvelt að koma með eintómt niðurrif í ræðustól á Alþingi og hafa ekki eina einustu tillögu um ráð til úrbóta.