132. löggjafarþing — 63. fundur,  9. feb. 2006.

Stefnumótandi byggðaáætlun 2006--2009.

391. mál
[16:13]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér þykir miður að ég skuli ekki hafa getað komið með neinar tillögur til úrbóta. Því miður eru vandamálin svo stór og víðfeðm að allur ræðutíminn í fyrri ræðu minni fór í að tala um þessi vandamál. En ég skal gjarnan koma glaður upp í seinni ræðu minni og koma með tillögur um úrbætur, ekki skal standa á því. (Iðnrh.: Um fiskveiðistjórnina.) Um byggðamál í heild sinni. Fiskveiðistjórnarmál snúast um byggðamál öðru fremur og því ætti hæstv. byggðamálaráðherra að gera sér grein fyrir. Ég er oft efins um að hún geri sér fulla grein fyrir því að umræðan um fiskveiðistjórnarmál, fiskveiðistjórnarkerfið og það hvernig við nýtum fiskimiðin í kringum landið, snýst um byggðamál. Það er í raun kjarninn í byggðamálum mjög víða um landið, ekki síst í sjávarbyggðunum. Þar hafa stjórnvöld farið alvarlega út af sporinu, þ.e. í útfærslunni á fiskveiðistjórnarkerfinu. Þetta er m.a. stór partur af skýringunni á því hvers vegna hefur fjarað svo hratt undan Vestfjörðum. Það er líka stór partur af skýringunni á því hve hratt hefur fjarað undan byggðinni í Vestmannaeyjum. Frumkvæðið hefur verið tekið af fólkinu, (Gripið fram í.) frumkvæði til atvinnusköpunar hefur verið tekið frá fólkinu, því miður. Ég kem inn á það allt saman í seinni ræðu minni á eftir.

Ég er ekki alveg sammála því að Frjálslyndi flokkurinn hafi verið á móti uppbyggingu á Austurlandi eða framkvæmdum þar. Raunar þekki ég það ekki í smáatriðum. Það var áður en ég hóf afskipti mín af flokknum. Ég man ekki lengur hvernig þingmenn greiddu atkvæði í því máli (Gripið fram í.) en ég minnist þess ekki að hafa heyrt formann minn tala gegn þeim framkvæmdum fram til þessa og þekki ég hann mjög vel og á oft við hann langar viðræður, m.a. um þessi mál.