132. löggjafarþing — 63. fundur,  9. feb. 2006.

Stefnumótandi byggðaáætlun 2006--2009.

391. mál
[16:15]
Hlusta

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég gerði ráð fyrir að hæstv. byggðamálaráðherra mundi lýsa ánægju sinni með þróun byggðamála á landinu. Það er vandi ráðherrans. Hún notar meðaltöl sér til fulltingis en það er nú þannig með þessi blessuðu meðaltöl eins og með dæmið um fæturna þar sem annar stendur í 50° heitu vatni og hinn í 0° heitu vatni, það er alltaf jafngott. Það segir ekkert um það hvort manninum sem á þessa tvo fætur eða þeir eru hluti af líði vel. Þannig er það líka með landsbyggðina, að þó að hægt sé að benda á að það hafi orðið fólksfjölgun t.d. í Norðausturkjördæmi þýðir það ekki að íbúum utan Eyjafjarðar, í Þingeyjarsýslunum báðum, á Melrakkasléttu allt að Miðausturlandi, frá Miðausturlandi suður fyrir um allt Suðurland nánast að Selfossi, líði vel. Það þýðir heldur ekki að orðið hafi fólksfjölgun á Vestfjörðum eða Norðurlandi vestra. Reyndar hefur fækkað í Norðvesturkjördæmi um 1,6% að meðaltali þrátt fyrir að það hafi fjölgað mjög nálægt Reykjavíkurborg, en Akranes, Borgarnes og það svæði nýtur áhrifa af höfuðborgarsvæðinu.

Við erum að tala um mjög djúpstæð vandamál þar sem fólksfækkun hefur orðið mjög mikil á stórum svæðum landsins þar sem meðaltekjur hafa lækkað stöðugt frá árinu 1999. Þetta kemur fram í skýrslu um tillögu til þingsályktunar um byggðaáætlun. Menntun á landsbyggðinni er miklu lakari en á höfuðborgarsvæðinu og aldurssamsetningin er mjög óhagstæð. En hæstv. byggðamálaráðherra er ánægður með stöðuna, fullkomlega sátt og talar um að við sem viljum breyta þessu séum niðurrifsfólk. En við bendum ekki á þessa þætti nema í þeim tilgangi einum að við teljum ástæðu til þess að breyta.

Meginuppistaðan í byggðaáætlun hæstv. ráðherra, bæði þeirri sem nú er liðin undir lok og þeirri sem tekur við, er styrking þriggja byggðarkjarna. Í tveimur tilfellum er um að ræða bæjarfélög en í einu tilfelli er um að ræða svæði. Styrking Akureyrar er mjög góð fyrir Akureyri og að nokkru leyti fyrir Eyjafjarðarsvæðið. Það skiptir ekki miklu máli fyrir Ólafsvík, Dalvík eða Siglufjörð eins og dæmin sanna enda Siglufjörður ekki enn þá í vegasambandi við Eyjafjörð. En styrking Akureyrar skiptir engu máli vestur fyrir sig og hún skiptir engu máli austur fyrir sig. Á þeim svæðum báðum er við mikla erfiðleika að etja. Það er alveg auðséð af hverju þeir erfiðleikar stafa, þeir stafa af því að svæðin einkennast af hefðbundnum atvinnugreinum, þ.e. landbúnaði og sjávarútvegi. Þær greinar hafa látið undan síga í sumum tilfellum og þar hafa orðið tækniframfarir þannig að minni mannafla er þörf.

Þegar breytingar verða í atvinnulífinu og auðséð er að svæðin geti ekki fengist við ástandið ein þarf að koma til aðstoðar. Það sem við þurfum að gera í tilfellum landsbyggðarinnar, tilfellum þeirra svæða sem hafa farið og eru að fara halloka — og ég ætla að biðja hæstv. ráðherra að leggja við hlustir af því að verið var að auglýsa eftir tillögum áðan — er að flytja störf út á land fyrir menntað fólk. Staðreyndin er sú að landsbyggðarfólk gengur í skóla og menntar sig en því miður er ekki störf að finna fyrir menntað fólk úti á landi í nógu ríkum mæli. Það dugir ekki landsbyggðinni að setja niður störf fyrir menntað fólk aðeins á Akureyri, aðeins á Miðausturlandi, ég hiksta við að segja aðeins á Ísafirði því staðreyndin er sú að opinberum störfum hefur líka fækkað þar. Eins og fram kom í máli hv. ræðumanns á undan mér hefur fækkað um 41 á Ísafirði á undanförnu ári. Það segir sína sögu.

Ísafjörður hefur verið útnefndur sem byggðarkjarni fyrir alla Vestfirði en hann er ekki í vegasambandi við stóran hluta Vestfjarða stærstan hluta ársins. Það kemur víða fram í þeirri byggðaáætlun sem við fjöllum um að samgöngur séu undirstöðuatriði samkeppnishæfni byggða. Það er ekki gert ráð fyrir því að íbúar við norðanverða Vestfirði geti keyrt á malbiki til Reykjavíkur fyrr en árið 2008. Það er ekki búið að tímasetja, það er ekki enn þá farið að ímynda sér hvenær íbúar suðurfjarða eiga að geta ferðast á milli Reykjavíkur og Akureyrar á malbiki. Þaðan af síður er búið að setja niður einhverja hugmynd um það á hvað löngum tíma fólk eigi að geta ferðast á milli heimila sinna og Reykjavíkur. Það er ekki búið að setja neina áætlun niður um hvernig eigi að bæta samgöngur á milli norður- og suðurfjarðanna þrátt fyrir að Ísafjörður eigi að vera þjónustuaðili og byggðarkjarni fyrir suðurfirði Vestfjarða.

Þarna stendur ekki steinn yfir steini, virðulegi forseti. Þetta er það sem ég vil kalla samhengislausa áætlun og meira og minna út í bláinn. Verið er að fara illa með fólk þegar verið er að vekja með því vonir um að styðja eigi við uppbyggingu á svæðinu en grundvallaratriðum eins og samgöngum t.d. er ekki sinnt. Ég kalla að það sé ekki verið að sinna samgöngum á meðan ekki er gert ráð fyrir að fólk geti haft samskipti innan þeirra svæða sem eiga þó að haldast í hendur. Það er heldur ekki gert ráð fyrir að fólk geti ferðast af öryggi innan svæðanna, eins og dæmin um Bolungarvík og Súðavík sanna fyrir okkur því það er ekki búið að gera neina áætlun um hvenær eigi að koma t.d. Bolvíkingum í hættulaust samband við Ísafjörð. Búið er að setja smáaura í veggöng milli Ísafjarðar og Bolungarvíkur miðað við hvað það kostar að bæta samgöngurnar á fullnægjandi hátt, því það er ekki verið að gera með einum gangastubbi og það eru ekki komnar neinar áætlanir um hvenær eigi að fara í hina tvo stubbana ef sú leiðin verður farin, sem ég vona svo sannarlega ekki. En ef það verður farin önnur leið kostar hún miklu meira.

Það er stundum eins og við Íslendingar þurfum að finna upp hjólið í öllum málum. Þó hafa allar þjóðir í kringum okkur byggðaáætlanir, sama hvort við tölum um Noreg, Svíþjóð, Finnland, Danmörku eða Spán t.d. Spánn er langt í burtu frá okkur í Suður-Evrópu en þar er unnið mjög markvisst eftir byggðaáætlun. Ég var einu sinni að ferðast á Spáni og keyrði þá fram á miklar vegaframkvæmdir uppi í fjöllum. Ástæðan var sú að fara átti að byggja upp svæðið þar, treysta þar búsetu, og fyrsta verkið sem þeir ráðast í er að byggja upp vegi. Að sjálfsögðu, því fólk þarf að komast til og frá.

Það er ekki gert á Íslandi, nei, nei. Það er skaffað með annarri hendinni, eins og til Ísafjarðar, en síðan er tekið með hinni. Þegar störf eru felld niður eins og þarf að gera í sumum tilfellum, það þarf að breyta, það þarf að hagræða, en það er hægt að bæta upp með því að flytja störf út á land. Því miður sjáum við mjög fá dæmi um það hjá núverandi hæstv. ríkisstjórn að hún flytji störf út á land, að hún skynji þessa nauðsyn. Við sjáum þó eitt dæmi núna, þ.e. að hæstv. félagsmálaráðherra hyggst flytja Fæðingarorlofssjóð á Norðurland vestra. Þó að ég fagni þeirri aðgerð er eiginlega frekar dapurlegt að horfa upp á að slík aðgerð er ekki hluti af markvissri áætlun, það er ekki unnið samkvæmt skipulagi heldur er þetta handahófskennt og lítur út eins og verið sé að styrkja flokkinn á tilteknu svæði og hugsanlega undirbúa jarðveginn fyrir framboð ráðherrans á svæðinu. Við skulum bara segja: Njóttu meðan á nefinu stendur, og störfin verða góð ef þau koma. Ég er ekki búin að sjá það.

Margoft hefur verið minnst á það í dag hvort fólk vilji búa úti á landsbyggðinni. Mín skoðun og mín fullvissa er sú að fólk vilji búa úti á landsbyggðinni, en það þarf að uppfylla ákveðin lágmarksskilyrði. Það þarf að vera tiltekin þjónusta, hún þarf ekki að vera eins og á höfuðborgarsvæðinu með hátæknisjúkrahús. Það þarf að vera heilbrigðisþjónusta, það þurfa að vera góðar samgöngur, það þarf að vera atvinna fyrir bæði menntafólk og fólk sem er minna skólagengið. Hingað til höfum við haft sæmilega trausta vinnu fyrir fólk sem er ekki með langa skólagöngu en þeim atvinnutækifærum fer þó fækkandi alls staðar á Íslandi, líka úti á landsbyggðinni og ekki kannski síst úti á landsbyggðinni vegna þess að það eru miklar tækniframfarir einmitt í þeim greinum sem hafa byggt á þessu vinnuafli.

Það er ekki nóg fyrir okkur að efla menntunartækifærin úti á landi, þó að það sé vissulega mjög nauðsynlegt og þakkarvert, heldur þarf líka að skapa tækifæri fyrir þetta sama fólk til þess að stunda atvinnu úti á landi eftir að það hefur menntað sig. Þar stendur ríkisstjórnin sig ekki í stykkinu.

Af því að ég er að tala um menntamál ætla ég að rifja upp fyrir hæstv. ráðherra svar við fyrirspurn sem ég lagði fram í vetur um mismunandi menntunarstig á höfuðborgarsvæðinu og utan höfuðborgarsvæðisins. Á höfuðborgarsvæðinu eru 28% íbúa með grunnskólapróf eingöngu en úti á landi eru það 45%. Á höfuðborgarsvæðinu eru 26% með háskólamenntun en 14% úti á landi. Ég er að tala um fólk á aldrinum 20–40 ára. Sá aldursflokkur, eins og fram kom í máli fyrri ræðumanns áðan, fólkið sem er burðarstoðin í hverju byggðarlagi. Tölurnar eru grafalvarlegar. Það er alvarlegt mál að 28% af íbúum höfuðborgarsvæðisins hafa aðeins lokið grunnskólaprófi. Við þurfum vissulega að bjóða því fólki tækifæri til þess að bæta við þekkingu sína, við menntun sína. Margir vilja gera það samanber svar sem kom í vetur um að 119 fullorðnum hefði verið vísað frá framhaldsskólum í vetur. En þörfin er enn þá brýnni úti á landi eins og tölurnar sýna.

Með þessu fábreytta atvinnulífi og lága menntunarstigi fylgir enn eitt, að meðaltekjur eru miklu lægri. Fyrir vikið eru sveitarfélögin verr í stakk búin til þess að efla atvinnulíf, einstaklingar og fyrirtæki eru illa í stakk búin til þess að standa undir nýbreytni og það er hlægileg aðstoð sem stendur til boða frá hinu opinbera við þá sem vilja brydda upp á nýjungum í atvinnulífi. 70 millj. til vaxtarsamninga á Vestfjörðum á þrem árum frá ríkinu er líka hálfbroslegt, sérstaklega þegar (Forseti hringir.) um er að ræða svæði eins og Vestfirði sem er eitt af tekjulægri svæðum landsins.