132. löggjafarþing — 63. fundur,  9. feb. 2006.

Stefnumótandi byggðaáætlun 2006--2009.

391. mál
[16:34]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er óumdeilt að hv. þingmenn Samfylkingarinnar lögðu það til að tryggingagjald, þá m.a. á fyrirtæki á landsbyggðinni, mundi hækka um 400 millj. kr. Það er skattahækkun upp á 1,3%. Það mundi nú heyrast hljóð í íslenskum almenningi ef stjórnmálaflokkur legði það til að skattar yrðu hækkaðir, að álögur yrðu auknar á viðkomandi einstaklinga. Síðan koma hv. þingmenn Samfylkingarinnar hér, lofa atvinnulífið á landsbyggðinni og segja að það þurfi að styrkja það. Í hinu orðinu leggja þeir til, rúmum tveimur mánuðum síðar, að það eigi að hækka álögur á fyrirtæki á landsbyggðinni. Hér tala menn ekki í takt. Rétt fyrir áramót leggja hv. þingmenn landsbyggðarinnar til að auka eigi álögur á fyrirtækin, m.a. á landsbyggðinni, en eftir áramót tala hv. þingmenn Samfylkingarinnar um erfiðleika (KLM: Hverjir …?) fyrirtækja á landsbyggðinni.

Hér er ekki um beinan samhljóm að ræða. Reyndar erum við að tala um hvort sitt árið, annars vegar árið 2005 og hins vegar árið 2006. Það getur vel verið að stjórnmálaflokkar breyti um stefnu yfir ein áramót.

Hæstv. forseti. Það vakti athygli mína að hv. formaður Samfylkingarinnar, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, kallaði vaxtarsamninga svokallað tískuorð þar sem stjórnvöld eru að leiða saman sterk og veik fyrirtæki, félagasamtök, sveitarstjórnir og með stuðningi stjórnvalda líka, ríkisstjórnarinnar. Hv. þingmaður tók að vísu að einhverju leyti undir orð hv. formanns Samfylkingarinnar þar sem hún talaði um að framlög ríkisins væru harla lítilfjörleg, m.a. gagnvart vaxtarsamningi fyrir vestan. Nú er unnið að undirbúningi þessara vaxtarsamninga á Norðurlandi vestra, Vestfjörðum og Vesturlandi — heldur hv. þingmaður að það ágæta starf muni ekki skila einhverjum árangri í framtíðinni og sé hið besta mál en ekki eitthvert tískuorð?