132. löggjafarþing — 63. fundur,  9. feb. 2006.

Stefnumótandi byggðaáætlun 2006--2009.

391. mál
[16:38]
Hlusta

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég hyllist til að kalla þessa vaxtarsamninga tískuorð eins og formaður Samfylkingarinnar gerði. Ég held því miður að þeir veki meiri væntingar en þeir standa undir. Eins og ég sagði áðan eru hlálega litlir peningar frá ríkinu í þessum samningum og framlög ríkisins eru alltaf skilyrt mótframlagi frá heimamönnum. Bæði í tilfellum fyrirtækja á Vestfjörðum og á Norðurlandi vestra erum við að tala um mjög óburðugt atvinnulíf. Það er aðeins eitt fyrirtæki sem eiginlega stendur undir nafni, fyrirtæki sem á einhvern pening á Norðurlandi vestra svo að dæmi sé tekið. Það er Kaupfélag Skagfirðinga. Því miður. Þegar svo er getum við ekki vænst þess að lagðir séu fram miklir peningar.

Ég er hins vegar ekkert frá því að þessir samningar geti skilað einhverju í samvinnu. Það er verið að leiða fólk saman til viðræðna en ég endurtek það sem ég sagði áðan, ég held að þeir rísi ekki undir nafni, þessir samningar, vegna þess að þeim fylgja allt of litlir peningar.

Svo ætla ég að endurtaka það sem ég sagði áðan, það sem þarf til að reisa við atvinnulíf úti á landi er flutningur á störfum fyrir menntað fólk út á land. Það þora ráðherrar þessarar ríkisstjórnar ekki að fara í af því að þeir eru hræddir við óvinsældirnar sem þeir baka sér í Reykjavík. Þannig skapast tímabundnar óvinsældir, og þeim sem missa vinnuna við flutning starfanna og vilja ekki flytja með er auðvitað vorkunn. Þeim er þó ekki eins mikil vorkunn og því fjölmarga fólki sem hefur misst vinnuna úti um land í gegnum tíðina vegna þess að störf á vegum ríkisins hafa verið lögð þar niður. Hér er a.m.k. um mörg störf að velja (Forseti hringir.) en ekki úti á landi. Fólk neyðist til að flytja burt ef það missir starf úti á landi.