132. löggjafarþing — 63. fundur,  9. feb. 2006.

Stefnumótandi byggðaáætlun 2006--2009.

391. mál
[17:25]
Hlusta

Magnús Stefánsson (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér annars vegar tillögur um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2006–2009 og hins vegar skýrslu hæstv. iðnaðarráðherra um framvindu byggðaáætlunar fyrir árin 2002–2005. Byggðaáætlun hin fyrri, sem nú hefur runnið sitt skeið á enda, var sett fram með öðrum hætti en áður hafði þekkst. Þar voru skilgreind ákveðin markmið og það sem tekið var upp í henni hafði vantað áður, að mínu mati. Það var skilgreint hvaða aðilar bæru ábyrgð á framkvæmd áætlunarinnar. Ég held að það hafi verið mjög til bóta og við sjáum þess m.a. merki í skýrslunni sem hér liggur frammi.

Ýmis atriði voru nýlunda í þeirri byggðaáætlun, t.d. má nefna vaxtarsamningana. Þar var fjallað sérstaklega um byggðakjarna. Það var líka lögð áhersla á háskólasetur og þekkingarsetur. Í þessari skýrslu sést svo hvernig til hefur tekist.

Öll mál sem við fjöllum um eru öðrum þræði byggðamál, geta fallið undir þann málaflokk. Við sjáum það m.a. í þeirri tillögu að byggðaáætlun sem hér liggur frammi að hún nær yfir fjölmarga málaflokka.

Það er einnig í þessari tillögu eins og fyrri byggðaáætlun, að þar eru sett fram skilgreind markmið. Þar er tekið fram hverjir skuli bera ábyrgð á framkvæmdum, hverjir taka þátt í viðkomandi verkefnum og tímaáætlunum o.s.frv. Ég vil því einnig lýsa því yfir að ég er ánægður með þá framsetningu sem er í þessu skjali, tel að hún sé mjög til bóta.

Það hefur komið fram að þessi tillaga hefur verið vel undirbúin, menn hafa gefið sér góðan tíma til þess að móta hana. Fjölmargir aðilar hafa komið að því verki með umsögnum og umfjöllun, þar á meðal sveitarstjórnarmenn víða um landið, að því leyti hefur málið verið vel undirbúið. Síðan hafa hin ýmsu ráðuneyti komið að málinu og standa að sjálfsögðu að því.

Í umræðum hér í dag hefur hæstv. iðnaðarráðherra verið krafin svara og skýringa varðandi aðra málaflokka en þá sem falla undir hennar ráðuneyti. Hæstv. iðnaðarráðherra á auðvitað ekki gott með það t.d. að fjalla um samgöngumál. Það er hárrétt sem kom fram hjá hæstv. ráðherra að það er annarra að fjalla um samgöngumál, t.d. um vegáætlun o.s.frv., þar sem um er að ræða einstök verkefni og mál í smáatriðum. En engu að síður er um allt þetta fjallað í þessari tillögu og iðnaðarnefndin mun síðan fara gaumgæfilega ofan í málið og eflaust mun nefndin fjalla þar um samgöngumál sem um aðra málaflokka.

Eins og við öll vitum, virðulegi forseti, hafa ýmis svæði á landsbyggðinni átt undir högg að sækja þar sem fólksfækkun hefur orðið, erfiðleikar í atvinnulífi o.s.frv. Því miður hefur það verið svo. En byggðaþróunin hér á landi er að mörgu leyti ekki ólík því sem við þekkjum í mörgum löndum. Þar hafa stærstu þéttbýlissvæðin vaxið og fólk hefur flust þangað og að sama skapi hefur fólki fækkað í dreifbýli. Menn eru að fást við þetta víða um heim. Ýmsar ástæður eru fyrir þessari þróun og ekki gott að draga fram einhverja eina meginástæðu. Margt getur komið til. Það geta verið persónuleg mál hjá viðkomandi einstaklingum og það geta orðið áföll í atvinnulífi eins og við þekkjum úr sögunni. Síðan geta ýmsar stjórnvaldsaðgerðir vissulega haft áhrif.

Í umræðunni hér í dag hafa ýmsir hv. þingmenn komið hér og haldið því fram að nánast ekkert hafi gerst í þessum málaflokki til þess að hamla gegn þróuninni sem við höfum því miður upplifað síðustu árin, og ekki bara síðustu heldur fjölmörg ár. Meðal annars kom formaður Samfylkingarinnar, hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, sem var málsvari Samfylkingarinnar í þessari umræðu og hélt þessu fram. Þetta er auðvitað ekki rétt. Ef farið er af sanngirni yfir þessi mál þá komumst við að því að ýmislegt hefur verið gert, en hvort það dugar eru auðvitað skiptar skoðanir um.

Varðandi atvinnumálin er ljóst að þar skiptir frumkvæði heimamanna mestu máli, við vitum það. Það er ekki svo, eins og stundum er nú viðkvæðið, að við stjórnmálamenn erum spurðir: Hvað ætlið þið að gera og hvað eruð þið með í farteskinu o.s.frv.? Það er auðvitað frumkvæði heimamanna sem skiptir mestu varðandi atvinnuuppbyggingu og síðan það að stjórnvöld og aðrir aðilar beiti tækjum sínum til þess að styðja við málin og koma þeim til framkvæmda.

Efst á blaði í þessari áætlun hér eða þessari tillögu eru auðvitað samgöngumálin sem eru einn brýnasti málaflokkurinn ef við horfum til byggðamála. Það hefur á síðustu árum og í gildandi vegáætlun verið lagt meira til vegaframkvæmda en áður hefur verið og er það vel. Við getum auðvitað haft þá skoðun hver fyrir sig að það mætti vera meira en engu að síður er þetta staðreynd. Ég tek sem dæmi að fyrir þremur árum síðan sáum við ekki fram á að íbúar á Ísafjarðarsvæðinu gætu komist til Reykjavíkur á bundnu slitlagi fyrr en, ég hygg að það hafi verið þá miðað við 2014. Núna er staðan önnur því að nú blasir við samkvæmt áætlunum að sú staða geti verið komin upp 2008, 2009 eða þar um bil, þannig að það er auðvitað ýmislegt sem hefur verið gert og áherslur hafa verið lagðar á þennan málaflokk. Það eru mjög stórar framkvæmdir fram undan í vegamálum sem er mjög mikilvægt að ná fram sem allra fyrst, sérstaklega á þeim svæðum þar sem fólk býr við lakar samgöngur og ég veit að það er fullur vilji og áhugi fyrir því að svo geti orðið.

Við höfum hins vegar lent í því, t.d. á síðasta ári þegar við fjölluðum um vegáætlun að það voru töluverð átök milli radda á höfuðborgarsvæðinu annars vegar og okkar landsbyggðarmanna hins vegar um áherslur í vegamálum, um það hvernig fjármagninu skyldi skipt. Það er því stundum við ramman reip að draga í þessum málum en sem betur fer er mikill skilningur fyrir þeim og þess vegna er staðan eins og hún er.

Eitt mikilvægt málefni varðandi samgöngumálin eru fjarskiptamálin. Við vitum það og þekkjum að góður aðgangur að netinu er eitt af því sem þykir sjálfsagt í dag og það er eðlilegt. Nú er vonandi fram undan átak í því að bæta úr þar sem úrbóta er þörf. Við vitum að settur var upp fjarskiptasjóður til þess að fjármagna úrbætur í fjarskiptum og við framsóknarmenn höfum lagt mjög mikla áherslu á það mál og gerðum það á sínum tíma og því er það okkur mikið fagnaðarefni að fjarskiptasjóður skuli vera orðinn að veruleika og að hann muni fara að virka fljótlega.

Eitt annað málefni sem skiptir verulega miklu máli á landsbyggðinni eru menntamálin. Við þekkjum það vel að mörgum fjölskyldum er erfitt á margan hátt þegar ungmenni þurfa að sækja framhaldsskóla frá heimili eftir grunnskólanám. Hins vegar erum við að sjá ýmsar breytingar á þessu. Ég nefni dæmi um nýjan framhaldsskóla á Snæfellsnesi því til stuðnings og það hefur sannað sig nú þegar hversu miklu máli sá skóli skiptir á því svæði, ekki eingöngu til hagsbóta fyrir fjölskyldur sem hefðu að öðrum kosti þurft að senda börn sín burt í skóla heldur er staðreyndin sú að það eru fleiri einstaklingar sem sækja framhaldsskólanám í dag á því svæði en áður hefur verið og hefði verið að öðrum kosti.

Síðan hefur auðvitað verið lögð mikil áhersla á uppbyggingu háskólamenntunar. Nýjasta dæmið um það er nýtt háskólasetur á Ísafirði sem var vígt um síðustu helgi og það er auðvitað mjög ánægjulegt skref sem þar var stigið. Vonandi verður það svo í framtíðinni að þar rísi háskólastofnun, það er framtíðarmál en þessi áfangi er mikilvægur. Fleira mætti auðvitað nefna í sambandi við menntamálin sem unnið hefur verið að og kemur fram í þessari tillögu en ég ætla ekki að lengja mál mitt frekar um það.

Í dag hefur hér verið töluvert rætt um vaxtarsamninga og sumir hv. þingmenn hafa komið fram og talað um að vaxtarsamningar séu tískuorð. Ótrúlegur málflutningur. Vaxtarsamningarnir eru settir upp sem tæki til þess að reyna að efla atvinnulíf á viðkomandi svæðum og vonandi næst góður árangur af því en það veltur auðvitað á því hvernig heimaaðilar og fleiri ná saman um að nýta þetta tæki. Hins vegar eru vaxtarsamningar auðvitað ekki nein patentlausn, menn mega auðvitað ekki tala þannig, þetta er eingöngu tæki sem menn geta nýtt sér til atvinnuuppbyggingar og það er von til þess að það takist vel til í þeim efnum. Allt tal um að vaxtarsamningar séu tískuorð er auðvitað fjarri sannleikanum og ég held að menn ættu ekki að vera að leggja sig fram um að tala þá niður, heldur að hvetja menn til dáða og til að nýta sér þau tæki sem í þeim felast.

Í þessari umræðu hefur töluvert verið rætt um stoðkerfið, atvinnuráðgjafa o.s.frv. Við höfum fjallað um stöðu Byggðastofnunar og þeirra stofnana sem snerta stoðkerfið. Ég held að það sé rétt að leita leiða til þess að samhæfa krafta og fjármagn sem í því felast því að það hefur komið fram að hæstv. iðnaðarráðherra er að vinna að því og það verður spennandi að sjá hvaða tillögur verða uppi þegar þar að kemur. En það eru auðvitað dreifðir kraftar og fjármagn í þessu kerfi sem ég er sannfærður um að hægt er að nýta betur landsbyggðinni til hagsbóta og það er auðvitað markmið sem við eigum að vinna að. Við sjáum dæmi um hvernig aðrar þjóðir hafa beitt sér í þessum efnum, þjóðir sem hafa náð ágætum árangri í byggðamálum.

Tíminn líður hratt. (KLM: Á gervihnattaöld.) Á gervihnattaöld, já. Ég vil aðeins fá að nefna hér að Alþingi hefur auðvitað lagt mjög margt til í sambandi við byggðamál og málefni sem menn vinna að úti um allt land. Við þekkjum það vel sem störfum í fjárlaganefnd Alþingis hversu mikill áhugi er víða um landið varðandi uppbyggingu á ýmsum þáttum, m.a. menningartengdri ferðaþjónustu, húsafriðun og rannsóknarverkefnum og menningarstarfsemi svo að ég nefni einhver dæmi. Það er alveg ljóst að það er töluvert mikið um að vera í öllum þessum málum víða um land og Alþingi hefur komið að því að mörgu leyti með fjárframlögum. Það er nú þannig að það þurfa ekki endilega að vera háar fjárhæðir til þess að telja í þessum efnum og víða um land er verið að vinna að svona verkefnum með stuðningi Alþingis með fjárveitingum.

Síðan er eitt mál í viðbót sem ég vil nefna, það er símenntun og rekstur símenntunarmiðstöðva úti um allt land, sem menn tala um á jákvæðum nótum sem eðlilegt er. Þar hefur Alþingi á undanförnum þó nokkuð mörgum árum gengið á undan og veitt fjármagn til reksturs símenntunarstöðva og það hefur gengið mjög vel og náðst góður árangur í þeim efnum, þannig að ég vildi aðeins, virðulegur forseti, fá að nefna þetta í þessu sambandi.

Svona rétt í lokin vil ég hins vegar segja að ég varð fyrir töluverðum vonbrigðum með talsmann Samfylkingarinnar í þessari byggðaumræðu, sem er formaður flokksins, hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir. Ég segi vonbrigði vegna þess að eins og fleiri geri ég auðvitað ákveðnar kröfur til forustumanna stjórnmálaflokka. Mér fannst í þessari umræðu harla lítið koma fram um leiðir og tillögur í þessum málum, það bar meira á gagnrýni og naggi út í það sem gert hefur verið og reynt að finna út það sem ekki er gert en ætti að vera. Ég vil fá að nefna þetta hér og læða inn örlítilli gagnrýni á þennan talsmann Samfylkingarinnar í byggðamálum. Ég hafði fyrir fram gert mér vonir um að sá málflutningur yrði málefnalegri.

Virðulegur forseti. Tímanum er að ljúka og að lokum vil ég bara segja að mér hefur oft á tíðum fundist umræða um byggðamál frekar á neikvæðum nótum. Auðvitað hefur það verið þannig að ástandið í byggðunum hefur sums staðar verið erfitt í gegnum tíðina og við höfum oft farið í gegnum það. En ég held að við ættum að reyna að beita okkur fyrir því að ná upp jákvæðri umræðu víða um land. Það er margt sem er í gangi, ekki bara af hálfu stjórnvalda heldur líka heimamanna og það er auðvitað mikilvægt að draga það fram í umræðunni því að neikvæð umræða er til þess fallin að slæva hugarfarið og draga úr frumkvæði. Ég vil þess vegna gera það að lokaorðum mínum að hvetja menn til jákvæðrar umræðu um kosti landsbyggðarinnar og allt það góða sem þar á sér stað og þau lífsgæði sem felast í því að búa á þeim svæðum.