132. löggjafarþing — 63. fundur,  9. feb. 2006.

Stefnumótandi byggðaáætlun 2006--2009.

391. mál
[17:41]
Hlusta

Magnús Stefánsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er nú oft gaman að ágætum félaga okkar, hv. þm. Sigurjóni Þórðarsyni. Það er alveg rétt hjá honum að ég stóð að þessari lagasetningu á sínum tíma og hún var auðvitað framkvæmd að vel íhuguðu máli og góðri samstöðu, m.a. við þá aðila sem voru í smábátaútgerð og eru í henni. Auðvitað vitum við að allar breytingar á þessum málum, fiskveiðimálum, geta haft áhrif til eða frá og oft erfitt að sjá það fyrir fram. En hvort ég sjái eftir því að hafa stutt þetta frumvarp, þá er það alls ekki svo, ég gerði það með opnum augum á sínum tíma.