132. löggjafarþing — 63. fundur,  9. feb. 2006.

Stefnumótandi byggðaáætlun 2006--2009.

391. mál
[17:48]
Hlusta

Magnús Stefánsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að hvorki ég né hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson geti með einhverjum patentlausnum stöðvað fólksflutninga á milli landsvæða. Ég held því miður að það sé ekki svo einfalt. Hins vegar eru stjórnarflokkarnir og ríkisstjórnin að reyna að beita ýmsum ráðum og koma með ýmis mál til að styrkja þessi svæði, bæði á Vestfjörðum og víðar. Eitt af því sem ég veit að hv. þingmaður þekkir er t.d. áhersla okkar á að styðja við uppbyggingu kalkþörungaverksmiðju á Bíldudal svo ég nefni eitt dæmi um atvinnufyrirtæki sem vonandi kemst nú á laggirnar sem allra fyrst og verður til þess fallið að styrkja þetta svæði. Auðvitað má svo nefna fleiri dæmi. En ég ætla ekki að gera það að þessu sinni.