132. löggjafarþing — 63. fundur,  9. feb. 2006.

Stefnumótandi byggðaáætlun 2006--2009.

391. mál
[17:49]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta voru óskaplega fátækleg svör. Ég hefði nú búist við meira frá formanni fjárlaganefndar og foringja Framsóknarflokksins, annars ríkisstjórnarflokkanna í Norðvesturkjördæmi. Hann virðist standa gjörsamlega ráðþrota frammi fyrir þessum mikla vanda. Hvernig á að fara að því að stöðva fólksflóttann af Vestfjörðum? Ég get alveg sagt hvernig hefði mátt fara að því. Reyndar hvernig hefði mátt koma í veg fyrir þetta að stórum hluta. Það hefði mátt koma í veg fyrir þetta með að láta fólkið þarna einfaldlega í friði. Til hvers í ósköpunum frömdu þeir þetta voðaverk á vordögum árið 2004, að ræna lífsafkomumöguleika frá fólkinu í þessum byggðum? Hvernig í ósköpunum stóð á því? Væri nú ekki gustukaverk að þeir sýndu þann manndóm, þingmenn Framsóknarflokksins, að koma með almennilegar skýringar á þessu?