132. löggjafarþing — 63. fundur,  9. feb. 2006.

Stefnumótandi byggðaáætlun 2006--2009.

391. mál
[17:50]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það vakti athygli mína að hv. þm. Magnús Stefánsson lýsti yfir sérstökum vonbrigðum með ræðu hv. þm. Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur. Ég segi nú í fyrsta lagi að út af fyrir sig gleður það mig að hv. þingmaður hafi miklar væntingar varðandi ræðuhöld okkar ágæta formanns. Hins vegar finnst mér hv. þingmaður virðist hafa hlustað afskaplega illa á ræðu hv. þm. Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur. Vegna þess að hún kom afskaplega víða við í ræðu sinni og grundvallarþema í ræðu hennar var jöfnun lífskjara. Og fjallaði um ýmsar leiðir til að jafna lífskjör á milli höfuðborgarsvæðisins og landsbyggðarinnar og nefndi mörg dæmi sem ég man svona af handahófi. Það var t.d. rætt um breytingu á skattaumhverfi fyrirtækja. Það var rætt um kostnað við menntun ungmenna. Það var talað um flutningskostnað og hvernig væri hægt að mæta honum. Það var talað um mikilvægi samgöngubóta og þannig gæti ég áfram haldið. En vegna þess að tími minn er stuttur þá verð ég að láta staðar numið hér en í seinna andsvari mun ég halda áfram upptalningu minni. Og einnig svara örlitlu varðandi (Forseti hringir.) tryggingagjaldsbombuna sem hér er verið að reyna að sprengja einu sinni enn. Ég hélt að hún hefði sprungið framan í Framsóknarflokkinn hér í ræðu minni áðan. (Forseti hringir.) En hv. þingmaður hefur líklega ekkert heyrt þá ræðu. (Gripið fram í.)