132. löggjafarþing — 63. fundur,  9. feb. 2006.

Stefnumótandi byggðaáætlun 2006--2009.

391. mál
[17:52]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það verður auðvitað hver að draga sínar niðurstöður af ræðuhöldum ágætra þingmanna hér. En ég ætla ekkert að fara að telja upp öll þau vonbrigði sem ég hef orðið fyrir varðandi ræðuflutning ýmissa þingmanna. En ég ætla að halda áfram upptalningu minni frá því áðan, sem ég man eftir úr ræðu hv. þm. Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur. Hún varaði við því að nota orðið vaxtarsvæði sem eitthvað lausnarorð á öllum vanda. (BJJ: Tískuorð.) Lausnarorðið er tískuorð, þ.e. orð sem er mikið notað og kannski ofnotað. Ég er alveg sammála því að við þurfum að fara varlega með sum orð vegna þess að það er ekki víst að vaxtarsvæðissamningar eigi við á öllum svæðum. Það var ágæt hugmynd sem fram kom hjá hv. þingmanni um það. Sums staðar væri kannski nær að tala um varnarsamninga vegna þess að við þurfum að verja ákveðnar byggðir. Svona þurfum við auðvitað að fara yfir landið. Mér finnst það heldur klént að hv. þingmenn skuli ekki þola að sé rætt um þetta málefnalega og menn geti velt þessu upp heldur hlaupa alltaf í vörn og útúrsnúninga og ég nefni (Forseti hringir.) enn einu sinni tryggingagjaldið. Tími minn er enn búinn þannig að ég verð að ræða það (Forseti hringir.) í einkasamræðum við hv. þingmann.