132. löggjafarþing — 63. fundur,  9. feb. 2006.

Stefnumótandi byggðaáætlun 2006--2009.

391. mál
[18:25]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson las upp ýmsar tölur um mannfjöldaþróun. Mér fannst hann að vissu leyti notast við gamlar tölur. Hann fór bara til ársins 2004 en það er liðið eitt ár síðan þá og vantar inn í tölur hans árið 2005. Frá Hagstofunni eru komnar tölur fyrir árið 2005. Ég verð að segja að það staðfesta þróunina sem hv. þingmaður dró upp áðan. Hann nefndi t.d. að á Austurlandi hefði þróunin orðið verri ef ekki hefði verið farið út í framkvæmdir þar. Mig langar til að spyrja hann: Hver er skoðun hans á þeim tölum sem hafa verið birtar á vegum Hagstofunnar, um að í raun sé líka fólksflótti af Austfjörðum? Brottfluttir Austfirðingar eru fleiri en aðfluttir. Eins fjölgar mikið útlendingum sem flytja til Austfjarða og setjast þar að. Þeim fjölgar allverulega miðað við þær tölur sem liggja fyrir. Er þetta ekki til marks um að Framsóknarflokknum hafi mistekist ætlunarverk sitt á Austurlandi?

Hin spurningin sem mig langar að spyrja hann varðar það að hann nefndi að gera þyrfti breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu til að koma í veg fyrir að störf töpuðust og kenna mætti þessu kerfi um ástandið. Hvernig í ósköpunum getur hv. þingmaður komið upp og sagt þetta í þessum ræðustól, þegar hann stóð hér sjálfur rétt fyrir einu og hálfu ári síðan og talaði fyrir því að gera breytingar á kerfinu sem sannarlega hafa valdið gríðarlegu tjóni í heimabyggð hans, Vestfjörðum?