132. löggjafarþing — 63. fundur,  9. feb. 2006.

Stefnumótandi byggðaáætlun 2006--2009.

391. mál
[18:27]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hvað varðar tölur um mannfjölda á Austurlandi og hlutfall útlendinga í fjölguninni má segja að það komi ekki á óvart. Menn gerðu ráð fyrir því í upphafi að vinnuafl við framkvæmdina væri að tiltölulega stórum hluta innlent sem varð síðan ekki reyndin heldur var það erlent. Þess vegna kemur ekki á óvart að stór hluti af íbúafjölgun á Austurlandi séu erlendir starfsmenn við þessar framkvæmdir. Það má ímynda sér að stór hluti þeirra hverfi aftur úr landi þegar framkvæmdum er lokið en trúlega mun einhver hluti þeirra setjast að á Austfjörðum og verða Austfirðingar.

Ég held að þrátt fyrir breytingar á forsendum hafi ekki mistekist að snúa við byggðaþróun á Austurlandi. Það sýnir skýrslan sem ég gat í ræðu minni, um landfræðilegt litróf íslenska fasteignamarkaðarins. Hún dregur fram að raunhækkun launa á Austurlandi sé mjög svipuð því sem gerist á höfuðborgarsvæðinu og nærliggjandi svæðum. Það er merki um styrkleika Austurlands, borið saman við höfuðborgarsvæðið. Hún sýnir líka að raunhækkun íbúðarhúsnæðis á Austurlandi, sem hafði verið á niðurleið á fram undir síðustu ár. Það tók kipp þegar framkvæmdirnar fóru í gang og hefur hækkað um 24% frá 1990, sem er nálægt því sem er í Norðurlandskjördæmi eystra hinu gamla. Ég held að þessar kennitölur sýni okkur að menn vilja fjárfesta í fasteignum á Austurlandi. Það er til marks um að aðgerðin hafi heppnast.