132. löggjafarþing — 63. fundur,  9. feb. 2006.

Stefnumótandi byggðaáætlun 2006--2009.

391. mál
[18:35]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spurði að þessu líka fyrr í vikunni í andsvörum og ég svaraði honum þá og þau svör hafa ekkert breyst. Spurningin er sú sama og svarið verður það sama. Ég er algerlega ósammála þingmanninum um að lagabreytingin á vordögum 2004 hafi verið eitthvert högg fyrir tilteknar byggðir. Það sóknardagakerfi sem var við lýði var komið í ógöngur. Menn hefðu lent í verulegum vandræðum jafnvel þó að engin lagabreyting hefði átt sér stað. Ég spurði hv. þingmann hvernig hann teldi að þróunin hefði orðið ef engar breytingar hefðu verið gerðar. Hann treysti sér ekki til að svara því. Enda skil ég það ósköp vel því hann veit eins vel og ég að menn voru komnir í öngstræti. Kostnaðurinn við að afla sér veiðiheimilda í formi sóknardaga eða veiðileyfis á bát var rokinn upp úr öllu valdi og farinn að líkjast því sem gerðist í aflamarkskerfinu. Menn hefðu gert svipað í framhaldinu eins og gerðist núna, þ.e. menn fækkuðu útgerðarbátum vegna þess að það voru of margir bátar að veiða það aflamagn sem hægt var að sækja miðað við það kerfi sem var. Þetta hefði gerst á hvorn veginn sem menn hefðu ákveðið að hafa löggjöfina, eins og var ákveðið um vorið 2004, eða að hafa hana óbreytta. Ég sé ekki að þingmaðurinn hafi sýnt hér fram á eða fært nein rök fyrir því að það hefði verið eitthvað skárra fyrir byggðirnar að hafa þetta óbreytt.

En svo vildi ég minna á að allur þorri landsmanna er sammála mér og honum um að það þurfi að gera verulegar breytingar á kvótakerfinu og fyrst og fremst hvað varðar áhrif framsalsins.