132. löggjafarþing — 63. fundur,  9. feb. 2006.

Stefnumótandi byggðaáætlun 2006--2009.

391. mál
[18:56]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Þessi umræða hefur nú staðið lengi dags og margt komið fram. Hins vegar er af nógu að taka þegar verið er að ræða byggðamálin og ætla ég að koma inn á eitt og annað sem snýr að þeim málum hér í seinni ræðu minni, og taka þá kannski fyrir einstök verkefni sem snúa að byggðaþróun í landinu og atvinnuhorfum. Ég fór í fyrri ræðu minni í dag örlítið yfir tvær skýrslur, annars vegar um áhrif kvótasetningar aukategunda hjá krókabátum á byggð á Vestfjörðum, ég fór þar eingöngu yfir niðurlagsorðin og minnti á að því var spáð, áður en það verk var unnið, að á Vestfjörðum mundi fækka um 93 störf vegna samdráttar í afla til vinnslu. Þar var miðað við upplýsingar frá Samtökum fiskvinnslustöðva sem töldu að miðað við fyrirhugaðan samdrátt sem af þessu hlytist mundi fækka um 93 störf í vinnslu aflans á Vestfjörðum. Hins vegar minnti ég á að Landssamband smábátaeigenda gerði úttekt fyrir Byggðastofnun á því hvaða áhrif kvótasetningin á ýsu, ufsa og steinbít hefði á störf til sjós á Vestfjörðum hvað varðar smábátaútgerðina. Niðurstaða þeirra var að fækka mundi um 160–200 störf vegna þessara fyrirhuguðu aðgerða stjórnvalda sem þá voru reyndar ekki komnar til framkvæmda en stjórnvöld höfðu verið að stefna að og það hafði talsvert lengi verið í lögum um stjórn fiskveiða að stefna stjórnvalda væri að festa allar fisktegundir í krókakerfi smábátanna inn í kvóta.

Því miður fór það svo, hæstv. forseti, að þetta gekk eftir. Þrátt fyrir þau viðvörunarorð sem hér voru höfð uppi úr skýrslu Byggðastofnunar sem unnin var af þróunarsviði Byggðastofnunar hafði það ekki áhrif á stjórnarþingmenn um að fara ekki þessa leið. Menn gengu til þessara verka og afleiðingarnar þekkjum við og hefur m.a. verið farið yfir þær í dag í ræðum þingmanna, bæði hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar, um þróun í mannfjölda á Vestfjörðum og Norðurlandi vestra og reyndar víðar á landinu, og eins vitnaði hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson í nýlega tölur frá Hagstofunni um íbúafækkun á landsbyggðinni. Það sem varað var við hefur því miður gengið eftir og það er hluti af þeim vanda sem við erum að fást við í byggðamálum á Íslandi í dag.

Hins vegar vitnaði ég í skýrslu sem unnin var í 2001 um sjávarútveg og byggðaþróun á Íslandi, þ.e. hvaða áhrif það hefði og hefði haft, hið virka framsal sem komst á fulla ferð upp úr 1994–95 og sem var í lögunum um stjórn fiskveiða, og las þar eingöngu lokaniðurstöðuna í þeirri skýrslu. Þar lá einnig fyrir spá um hvað mundi gerast og því miður hefur það einnig gengið eftir, hæstv. forseti.

Síðan erum við með skýrslu iðnaðarráðherra um framvindu byggðaáætlunar fyrir árið 2002–2005. Það verður að segjast eins og er að þar er einnig dregið fram að fækkun hafi orðið á vissum svæðum og segir í skýrslunni að á „tímabilinu 2000–2004 hefur þróunin breyst á þann veg að nú er einungis fækkun í tveim gömlu kjördæmanna, þ.e. Vestfjörðum og Norðurlandi vestra.“ Fyrri skýrslan sem ég vitnaði til hefur einmitt bent á hvað mundi gerast ef svo yrði gengið að sjávarútveginum sem gert var af stjórnvöldum.

Ljóst er, hæstv. forseti, að hinar miklu byggingarframkvæmdir á Miðausturlandi hafa haft þau áhrif að þar hefur orðið viðsnúningur og fólki hefur fjölgað á Miðausturlandi en þó er það enn þá þannig, að ég hygg, hæstv. forseti, að fjölgunin þar stafi mest af því mikla innstreymi af erlendum mönnum sem þar starfa nú um stundir. Og þó að erlendir starfsmenn séu allra góðra gjalda verðir vonast ég til þess, eins og ég hygg að flestir Íslendingar geri, að þessar framkvæmdir á Austfjörðum verði til þess að styrkja byggðina á Austfjörðum, á Miðausturlandinu, og þar muni varanlegum íbúum fjölga og Íslendingar muni vilja flytja inn á það svæði og ég geri ráð fyrir að þannig verði það þegar upp er staðið. Það hefur sýnt sig að störf í álverum eru störf sem margir vilja sinna og auðvitað er fullt af störfum sem eru hliðartengd við álver sem fólk þarf að mennta sig í og eru störf sem krefjast talsverðrar menntunar. Því ber auðvitað að fagna ef aðgerðir stjórnvalda ná einhvers staðar árangri, og það vonast ég til að gangi eftir á Miðausturlandi.

Hvað höfum við þá lært af þeirri staðreynd, hæstv. forseti? Við höfum lært að það er atvinnan, atvinnufestan og atvinnuöryggið sem virðist skipta fólk langmestu máli þegar það horfir til þess hvort það vilji búa á ákveðnum svæðum til lengri tíma og hvort það treysti því að þar geti það sett sig niður með fjölskyldu sína og jafnvel stofnað til eigna án þess að verða fyrir fjárhagslegu tjóni eða atvinnutapi síðar.

Hæstv. forseti. Það sama og varað var við í skýrslunum varðandi Vestfirði, um samdrátt í aflaheimildum og að þar mundi fækka og óvissan tæki við, gerðist í raun og veru á Austurlandi. En það snerist algjörlega við þegar menn áttuðu sig á því að þar yrði farið í virkjanir og álver. Þá trúðu menn því að þar yrði atvinnufesta nokkur og atvinnuþróunin snerist við. Allt að einu liggur það fyrir, hæstv. forseti, að atvinnustigið hefur langmest að segja um hvort fólk treystir sér til að búa á ákveðnum svæðum eða ekki, enda er atvinnan undirstaða þess að fólk geti búið einhvers staðar. Fólk verður að hafa atvinnu og afkomu.

Þær byggðir hér á landi sem eiga mest undir sjávarútvegi, m.a. Vestfirðir og Breiðafjörður, og hinar dreifðu sjávarbyggðir vítt og breitt í kringum landið, á Norðurlandi, standa núna höllum fæti, því miður. Vegna þess að menn hafa farið leið kvótasetningar og takmarkað mjög frelsi manna við að komast inn í atvinnugreinina sem ómótmælanlega er undirstaða sjávarbyggðanna og hefur orðið til þess að ákveðin festa hefur orðið til í sjávarbyggðunum ef aflaheimildir hafa verið þar til staðar og menn hafa getað stundað atvinnu sína, sem hefur svo einnig orðið til þess, hæstv. forseti, að önnur atvinnustarfsemi hefur náð að blómstra samhliða sjávarútveginum.

Ég nefni það, hæstv. forseti, að hið stóra fyrirtæki Marel þróaðist upp úr litlu fyrirtæki sem var í því að þjónusta sjávarútveginn og Pólstækni á Ísafirði, sem Marel-samsteypan á nú og rekur vestur á Ísafirði, það fyrirtæki þróaðist líka upp úr því að þjónusta sjávarútveginn og vinna lausnir fyrir sjávarútveginn. Þessi fyrirtæki eru núna að þjónusta veröldina, ekki bara á sjávarútvegssviði heldur á matvælasviði og er öflug samsteypa og því ber auðvitað að fagna. En undirstaðan varð til við að þjónusta sjávarútveginn. Sama má segja um ágætt fyrirtæki vestur á Ísafirði, iðnaðarfyrirtækið 3X-Stál, sem varð til við að þjónusta sjávarútveginn og er núna að þjónusta vítt og breitt um veröldina, ekki bara í sjávarútvegi heldur einnig í matvælaiðnaði.

Það hefur því margt orðið til vegna þess að sjávarútvegurinn hefur verið öruggur og stöðugur. Ég hlustaði á erindi hjá Atvinnuþróunarfélagi Norðurlands. Framkvæmdastjóri þess sagði í fyrra í útvarpinu að ljóst væri að nánast öll nýsköpun og framþróun í iðnaði á Eyjafjarðarsvæðinu væri því að þakka að þar væru stór, öflug og tiltölulega stabíl sjávarútvegsfyrirtæki. Það er því algjörlega ljóst, hæstv. forseti, að miklu máli skiptir fyrir landsbyggðina að sjávarútvegurinn sé til staðar og sé sú undirstaða sem byggðirnar hafa byggt á kringum hann og sem afleiðingar af því að hann er til staðar byggjast síðan upp önnur atvinnutækifæri.

Núna erum við hins vegar að mæta því að hafa lent í þeim samdrætti sem hefur orðið m.a. vegna þess hvernig við höfum farið í lögin um stjórn fiskveiða og við stöndum auðvitað frammi fyrir því að óbreytt lög um stjórn fiskveiða geta alls ekki gengið inn í framtíðina, það liggur algjörlega fyrir. Það hljóta allir að sjá sem skoða málin með raunveruleikagleraugum. Hins vegar er það svo að sumir vilja alls ekki viðurkenna að taka þurfi á því og breyta þeim lögum til að byggðirnar haldi velli og geti dafnað. En sem betur fer eru fleiri og fleiri að átta sig á því að þannig er það nú, það er hinn kaldi veruleiki og menn þurfa að finna lausnir sem duga til að hægt sé að horfa til þess að tekjur skapist í þessari atvinnugrein.

Ég er með skýrslu fyrir framan mig, hæstv. forseti, um stöðu og horfur rækjuiðnaðar á Íslandi og því miður horfir nú ekki vel þar. Skýrslan var unnin af starfshópi sem sjávarútvegsráðherra skipaði. Í honum voru Davíð Ólafur Ingimarsson hagfræðingur, Ólafur Marteinsson, framkvæmdastjóri Þormóðs ramma – Sæbergs og Pétur Grétarsson, hagfræðingur hjá Byggðastofnun. Þeir segja einfaldlega í þeirri samantekt að forsenda þess að rækjuiðnaður eigi sér framtíð á Íslandi sé að rækjan fari aftur að veiðast á Íslandsmiðum og telja litla framtíð í því að þurfa að byggja rækjuiðnaðinn algjörlega á því að flytja inn iðnaðarrækju. Verð sé lágt á mörkuðum fyrir rækjuna og það fáist ekki nægilega hátt verð og ekki sé heldur hægt að kaupa iðnaðarrækjuna á því verði inn á okkar svæði, Ísland, til að vinna hana með hagnaði svo að allt að einu megi búast við að mjög miklir erfiðleikar verði í rekstri rækjuiðnaðarins á þessu ári. Og þeir eru víst að gera því skóna að gengið muni aðeins breytast en það er nú fugl í skógi, hæstv. forseti.

Þetta er það umhverfi sem sjávarútvegurinn og landsbyggðin standa frammi fyrir og þá er að spyrja: Hvað getum við gert annað? Byggðaáætlunin sem við erum með í höndunum bendir á ýmislegt og það er auðvitað sjálfsagt að reyna að nota sér það. En ég endurtek það samt, hæstv. forseti, að sjávarbyggðir sem liggja vel við fiskimiðum landsins verða að hafa aðgang að veiðiheimildum sínum ef þær eiga að halda velli, hvað svo sem við gerum annað, sem er vissulega margt gott, m.a. að efla menntun, sem skiptir ofboðslega miklu máli fyrir framtíðina. Að laga samgöngurnar, gera átak í því að tengja saman byggðir og stytta vegalengdir skiptir líka mjög miklu máli og horfa til þess hvað við getum gert til að efla ferðamannaiðnaðinn. Hvað geta t.d. Vestfirðingar gert í því að reyna að tengjast ferðamennsku á Grænlandi? Er það raunhæfur möguleiki o.s.frv.? Til allra þessara átta verðum við að horfa en getum hins vegar ekki lamið hausnum við steininn og horft fram hjá því að sjávarútvegurinn er undirstaða þessara byggða. Við rífum ekkert upp atvinnustig í þeim atvinnugreinum sem ég var hér að nefna einn, tveir og þrír til að fylla upp í þau skörð, því miður. En þar væri hægt að snúa við blaðinu og efla byggðirnar á ný.