132. löggjafarþing — 63. fundur,  9. feb. 2006.

Stefnumótandi byggðaáætlun 2006--2009.

391. mál
[19:12]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég kem upp í ræðustól öðru sinni í dag til að ræða tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi byggðaáætlun. Í fyrri ræðu minni, virðulegi forseti, fór ég aðeins yfir tölur varðandi þróun mannfjölda víðs vegar á landinu. Niðurstaða mín var sú að okkur hefði mistekist í veigamiklum atriðum eða réttara sagt stjórnvöldum, ríkisstjórninni hefði mistekist, hlyti að hafa mistekist í veigamiklum atriðum í byggðapólitík sinni því að tölurnar tala sínu máli. Þegar rýnt er í þær tölur sem eru fyrirliggjandi á vef Hagstofu Íslands og þær greinar er augljóst að allt of margar byggðar, nánast allt í kringum landið nema kannski á suðvesturhorninu, eiga við mjög alvarlegan vanda að etja, stöðuga fólksfækkun, að vísu mishraða eftir byggðarlögum, en stöðuga fólksfækkun þar sem yngsta fólkinu virðist fækka hraðast. Fæðingum fækkar, meðalaldurinn hækkar og það stefnir í rauninni í mikið óefni ef fram fer sem horfir.

Það er hugsjón mín í stjórnmálum, virðulegi forseti, að okkur beri að reyna að gera allt sem við getum til að halda landinu í byggð og ég sé ekkert athugavert við það að hafa slíka skoðun og sé heldur ekkert athugavert við það að berjast fyrir þeirri skoðun. Ég tel að það sé einfaldlega skylda okkar að halda þessu fallega og ríka landi í byggð eftir fremsta megni og þannig varðveita þá arfleifð sem okkur hefur verið færð í hendur af forfeðrunum sem hafa lagt mikið á sig og kannski ekki síst nú síðustu kynslóðir við að byggja upp landið, samgöngur, félagslega þjónustu, skóla, heilbrigðiskerfi og íbúðarhúsnæði ekki síst, að þarna sé hreinlega allt of mikið í húfi, allt of mikil verðmæti í húfi til að við getum látið þetta glutrast úr í höndunum á okkur núna á örfáum áratugum. Ég tel að það skipti miklu máli fyrir þjóðina til framtíðar að okkur takist þetta. Ég sé það í hendi mér að landsbyggðin býr yfir það miklum kostum, og þetta er engin byggðarómantík, þetta er bara staðreynd, að ég tel að til mikils sé að vinna að við höldum henni í byggð og þarna séu lífvænleg samfélög fólks, að þarna alist upp nýjar kynslóðir og vaxi úr grasi.

Hæstv. forsætisráðherra flutti ræðu í gær á viðskiptaþingi þar sem hann velti því fyrir sér hvernig Íslands mundi líta út árið 2015. Ég hef lesið þessa ræðu tvisvar eða þrisvar og það veldur ákveðnum vonbrigðum að hæstv. forsætisráðherra talar nánast ekkert um byggðaþróun í landinu. Hann minnist varla orði á það hvernig hann sér fyrir sér að Ísland verði, hvernig byggðin í landinu verði eftir níu ár. Það er aðeins komið inn á stóriðjuuppbyggingu en það er í raun allt og sumt. Þetta finnst mér mikill skaði. Mér finnst að ráðherrar í ríkisstjórninni mættu sýna þessum málum miklu meiri áhuga en þeir gera. Framsóknarflokkurinn á þó smá hrós skilið fyrir að hafa staðið sig vel í umræðunni í dag þó hann hafi vondan málstað að verja. Þingmenn flokksins hafa tekið virkan þátt í umræðum, flutt hér ræður og komið í andsvör. En því miður er ekki hægt að segja hið sama um þingmenn Sjálfstæðisflokksins. Ég held að enginn þeirra hafi flutt ræðu hér í dag. (Gripið fram í.) Kannski einn. Nokkrir hafa komið upp í andsvör en þeir hafa ekki verið sjáanlegir í þingsalnum núna í marga klukkutíma og sýna þessum málaflokki, byggðamálunum, mjög mikið tómlæti. Enginn ráðherra flokksins hefur verið viðstaddur þessar umræður. Þetta finnst mér mjög ámælisvert og tel rétt að það verði fært til bókar í þingtíðindum og vil hér með vekja athygli á þessu.

Ég talaði um byggðaþróun, mannfjöldaþróun á ýmsum stöðum. Í lok ræðu minnar kom ég inn á mjög mikilvægt byggðarlag fyrir okkur Íslendinga sem er reyndar í mínu kjördæmi. Mér rennur blóðið til skyldunnar að nota þetta tækifæri til að vekja athygli á ástandinu þar. Þetta eru Vestmannaeyjar, samfélag sem á sér merka sögu, hefur búið yfir mikilli grósku og skemmtilegri menningu, en virðist hafa ratað í ógöngur. Þarna er fólki stöðugt að fækka. Á blaðsíðu 50 í þingsályktunartillögunni sem lögð er fram hér, er lítill kafli um Vestmannaeyjar. Þar segir reyndar og er viðurkennt að í Vestmannaeyjum hefur fólki fækkað mikið. Sérstaða eyjanna er viðurkennd í þessu skjali vegna legu þeirra, vegna sjávarútvegsins og náttúru, fuglalífs og jarðsögu, byggðasögu og eyjasamfélagsins. Þarna má fá yfirsýn yfir þetta allt. Þetta allt saman hefur skapað eyjunum mikla sérstöðu, skemmtilega sérstöðu, næstum einstæða sérstöðu vil ég segja, ekki bara á Íslandi heldur kannski við Norður Atlantshaf. Réttilega er bent á að þetta megi nýta frekar til að þróa ferðaþjónustu og annað, en atvinnulíf sé einhæft, tengt sjávarútvegi og fiskvinnslu og sóknarfæri þar sé helst að finna í fullnýtingu sjávarfangs. Bent er á að þekkingar- og rannsóknarstarf sé mikilvægt og að bæta þurfi samgöngur milli lands og Eyja til að unnt sé að auka fjölbreytni í atvinnulífi sem annars eru þó góð skilyrði fyrir.

Virðulegi forseti. Ég verð að segja að mér finnst þetta mjög vel orðað. Ég er sammála hverju einasta orði sem þarna stendur. En því miður verð ég að segja að síðasta setningin veldur mér svolitlum vonbrigðum því þar segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Unnið er að stefnumótun fyrir byggð í Vestmannaeyjum og öðrum hlutum Suðurlands. Í þeirri vinnu munu verða stikaðar leiðir til sóknar á grundvelli staðhátta í Eyjum.“

Hvers vegna skyldi þetta valda vonbrigðum? Jú, Þetta veldur mér vonbrigðum vegna þess að þetta segir mér að í raun og veru sé ekki verið að gera það sem ríður mest á að gera og það er að gera eitthvað í málefnum Vestmannaeyja. Við höfum engan tíma til að bíða eftir einhverri svona stefnumótun eða að farið verði út í einhvers konar áætlanagerð eða rannsóknir á staðháttum í Vestmannaeyjum. Við vitum alveg hvernig ástandið er. Það þarf ekki annað en að fara út í Vestmannaeyjar og vera þar í nokkra daga til að verða þess áskynja. Maður þarf heldur ekki að gera annað en að skoða tölur yfir þróun mannfjölda í Vestmannaeyjum og þá sér maður að ástandið er grafalvarlegt. Það hefur verið stöðug fólksfækkun í Vestmannaeyjum síðan 1999. Þá voru íbúar samkvæmt opinberum tölum alls 4.933. Núna eru þeir um 4.100. Þetta er fækkun um 800 manns á 14 ára tímabili. Þetta sýnir að þessar tölur eru grafalvarlega því árið 1991 voru 71% íbúanna 40 ára og yngri. Nú í byrjun desember síðastliðinn var þetta hlutfall komið niður í 58%. Fyrir 14 árum síðan voru 3.482 íbúar 40 ára og yngri í Vestmannaeyjum. Núna eru þeir aðeins 2.422, yngri en fertugir. Þetta segir okkur að fækkunin í aldursflokkunum, 40 ára og yngri á þessum 14 árum, er rúmlega 1.000 manns. Þetta er mjög alvarlegt því við erum hérna að tala um börn og unglinga og fólk á barneignaaldrinum á milli tvítugs og fertugs. Þetta aftur leiðir til þess að meðalaldurinn í Vestmannaeyjum hækkar mjög hratt. Við sjáum að fæðingatölurnar fara lækkandi. Á árinu 1991–1994 fæddust 98–105 börn árlega í Vestmannaeyjum. Síðan hefur fæðingunum fækkað um helming á hverju ári. Þær voru aðeins um 50 árin 2003 og 2004.

Ég held að það þurfi engan stóran tölfræðing eða stærðfræðing til að sjá að hér eru mjög alvarlegir hlutir að gerast. Ég hef orðað það þannig að byggðinni sé hreinlega að blæða út og við megum engan tíma missa. Nýjustu tölur frá Hagstofunni staðfesta að þessi neikvæða þróun heldur áfram á fullri ferð, því miður. Ef við skoðum tölurnar yfir aðflutta og brottflutta á síðasta ári í Vestmannaeyjum þá eru brottfluttir frá Vestmannaeyjum 258. Aðfluttir eru 212. Þetta þýðir að brottfluttir umfram aðflutta eru 46 bara á síðasta ári.

Fyrir síðustu alþingiskosningar töluðu stjórnarflokkarnir mikið um það stórslys sem yrði ef skipt væri hér um ríkisstjórn, að það mundi leiða ýmsar hörmungar yfir landið og kannski ekki síst landsbyggðina. En hvernig hefur þróunin verið frá síðustu alþingiskosningum víða um landið? Tölurnar í Vestmannaeyjum sýna að þessi þróun hefur verið skuggaleg. Bara í Vestmannaeyjum hefur íbúum fækkað um 200, bara í Vestmannaeyjum frá síðustu alþingiskosningum.

Virðulegi forseti. Þetta finnst mér segja meira en mörg orð um að þarna eru mjög alvarlegir hlutir á ferðinni og þarna þurfum við að gera eitthvað og við þurfum að gera það sem fyrst. En hvað er þá hægt að gera fyrir stað eins og Vestmannaeyjar? Við skulum bara taka Vestmannaeyjar. Ég hef ákveðna skoðanir á því hvað megi gera fyrir Vestmannaeyjar. Það þarf að sjálfsögðu að bæta samgöngur til og frá Eyjum. Nú hafa nýjustu niðurstöður sýnt að sáralitlar líkur eru á því að grafin verði göng á milli lands og Eyja og þá ber okkur strax að fara í þá vinnu að endurbæta samgöngur með öðrum hætti. Ég tel að stjórnvöld eigi strax að skoða möguleikana á að kaupa nýtt skip í staðinn fyrir Herjólf, stærra skip og hraðskreiðara sem getur gengið á milli lands og Eyja að minnsta kosti tvær ferðir á hverjum sólarhring. Það þarf líka að endurbæta flugsamgöngur. Það þarf að endurreisa ferðamennskuiðnaðinn í Vestmannaeyjum sem hefur orðið fyrir miklu áfalli eftir að flugsamgöngum milli lands og Eyja var breytt. Það þarf líka að gera ákveðnar breytingar að sjálfsögðu á fiskveiðistjórnarkerfinu eins og menn hafa verið að benda á. Vestmannaeyingar hafa þó verið það heppnir að þeir hafa ekki tapað miklu af veiðikvótum. Hins vegar er eitt af þeirra stóru vandamálum það að þeir flytja út allt of mikið af sínu fiskhráefni óunnu úr landi. Það er ekki unnið í Vestmannaeyjum. Það fer beint um borð í gáma og er flutt óunnið úr landi. Fyrir svona samfélag sem er svo háð fiskvinnslu og sjósókn er þetta mjög alvarlegt. Það verður náttúrlega að setja reglur sem mynda einhvern hvata til þess að hægt sé að vinna þennan afla meira í landi, skapa þar virðisauka og störf og tekjur inn í bæjarfélagið af því áframvinna þann fisk sem berst þó að landi. Ég tel að það megi gera það til að mynda með þeim reglum eða lögum sem við í Frjálslynda flokknum höfum lagt til á Alþingi, þ.e. aðskilja veiðar og vinnslu fjárhagslega. Þannig geta allir fiskverkendur boðið í þann afla sem berst á land. Fiskvinnslan í Vestmannaeyjum gæti þá boðið í þann afla sem þó berst á land í Vestmannaeyjum. Það yrði hreinlega óheimilt að selja þennan fisk beint úr landi í beinum viðskiptum. Þetta væri t.d. hægt að gera og þetta held ég að mundi strax skila miklu.

Annað sem fer illa með Vestmannaeyinga, að mínu mati, er að þeir leigja frá sér mjög mikið af aflaheimildum. Kvótakerfið eins og það byggt upp í dag leyfir að fyrirtækin geti leigt mikið frá sér af aflaheimildum. Vestmannaeyingar leigja mjög mikið af bolfiski frá sér. Þetta er mjög alvarlegt því þetta skilur náttúrlega engan virðisauka eftir í samfélaginu í Vestmannaeyjum. Þetta eru bara veiðiheimildir sem koma í formi bréfs frá Fiskistofu á hverju ári inn í nokkur ákveðin fyrirtæki, inn á nokkrar örfáar kennitölur. Síðan halda þessar veiðiheimildir áfram út úr bæjarfélaginu án þess að skilja nokkuð eftir sig nema kannski eitthvert peningaflæði inn á bankareikninga viðkomandi útgerðarfyrirtækja. En fólkið sem býr í bæjarfélaginu hefur engar tekjur af þessu. Þetta skapar engan virðisauka í bæjarfélaginu. Þetta er að sjálfsögðu mjög slæmt mál fyrir samfélagið í Eyjum.

Þetta eru nokkur atriði sem mætti framkvæma til að rétta af sjávarbyggð eins og Vestmannaeyjar, þ.e. endurbætur á samgöngukerfi og síðan umbætur á fiskveiðistjórnarkerfinu sem gera það að verkum að byggðunum sjálfum er gefið tækifæri til að skapa aukinn virðisauka úr því hráefni sem berst á land á hverjum tíma. Eflaust má heimfæra með einhverjum smábreytingum þann veruleika sem Vestmannaeyingar glíma við núna yfir á margar aðrar sjávarbyggðir víða um land. Eflaust má gera það. En tími minn í ræðustól núna leyfir það ekki. Ég vildi nota þetta tækifæri mitt núna til að taka Vestmannaeyjar út úr og tala sérstaklega um þær og benda á hvernig staðan er þar.

Eitt enn að lokum, virðulegi forseti. Það má gera eitt enn fyrir svona byggðir og það er að taka ríkisstofnanir og flytja þær út á land á svona staði. Ég vil vekja athygli á því að í þessari þingsályktunartillögu á blaðsíðu 53 er mjög athyglisverður kafli þar sem greint er frá reynslu Norðmanna af þessu, þ.e. að flytja ríkisstofnanir markvisst út á land. Þar hefur reynslan, tel ég vera, að ég best veit, verið nánast undantekningarlaust mjög góð. Hvers vegna í ósköpunum hafa stjórnvöld hér á landi ekki kjark til að gera það sama, feta í fótspor Norðmanna (Forseti hringir.) og flytja ríkisstofnanir og störf út á land?