132. löggjafarþing — 63. fundur,  9. feb. 2006.

Stefnumótandi byggðaáætlun 2006--2009.

391. mál
[19:29]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Að sjálfsögðu á að fara í framkvæmdir í Bakkafjöru ef það er hægt. Ég held hins vegar að framkvæmdatíminn á þeirri hafnargerð yrði langur. Það eru mörg ár þangað til að það verður tilbúið. Ég tel því fyllilega réttlætanlegt að grípa strax til þeirra aðgerða og athuga kaup á nýju skipi, athuga hvort ekki sé hægt að fá einhvers staðar annað skip. Fyrir hendi er góð höfn í Vestmannaeyjum. Fyrir hendi er góð höfn í Þorlákshöfn. Þó keypt sé skip er alltaf hægt að selja það aftur eftir nokkur ár ef menn ná þeirri lendingu að mögulegt sé að gera góða höfn í Bakkafjöru, sem reyndar hefur ekki fyllilega verið sýnt fram á enn þá. Það er alveg rétt sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson bendir á, að það er flogið á milli Vestmannaeyja og Bakka og það flug er mjög mikilvægt og gerðar hafa verið ákveðnar endurbætur þar á aðstöðu, sérstaklega uppi á landi. En það breytir þó ekki því að flugsamgöngur milli Vestmannaeyja og Reykjavíkur — það tekur ekki nema rétt rúman hálftíma að fljúga þessa leið — að flugsamgöngur milli Vestmannaeyja og Reykjavíkur eru alls ekki nógu góðar. Það er allt of dýrt fyrir fólk í dag að notfæra sér þetta. Því er ástandið á þeim málum alls ekki nægilega gott.

Svo varðandi hvað við í Frjálslynda flokknum mundum vilja gera. Ég mundi vilja halda áfram og útfæra fiskveiðistefnu okkar. Ég held að hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson viti alveg út á hvað hún gengur, að hann hafi kynnt sér hana. Við höfum talað um að opna kerfið neðan frá og byrja á að setja sérstaklega strandveiðiflotann í sóknarmarkskerfi — þá á ég við þau skip sem landa ferskum afla til vinnslu í landi — að þessi floti verði settur út í vel útfært sóknarmarkskerfi, svona svipað og menn hafa gert í Færeyjum með góðum árangri.

Tími minn leyfir mér því miður ekki að fara út í þetta í smáatriðum. En ég skal hvenær sem er glaður setjast yfir það með hv. þingmanni og útskýra fyrir honum hvað fyrir okkur vakir í þessum efnum.