132. löggjafarþing — 63. fundur,  9. feb. 2006.

Stefnumótandi byggðaáætlun 2006--2009.

391. mál
[19:31]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hætta mér út í umræðu um hvort eigi að kaupa nýtt skip eða nýja ferju, það er mál sem ég þekki ekki og ætla því ekki að blanda mér í þá umræðu. Ég held hins vegar að það sé mjög skynsamlegt og það besta í stöðunni fyrir Eyjamenn væri að kalla eftir framkvæmdum við Bakkafjöru og gera þar nýja höfn því að ég er alveg sannfærður um að það væri langbesta aðgerðin til þess að draga úr samgöngulegri einangrun eyjanna að hafa sem stystan ferðatíma og sem flestar ferðir dag hvern. Það er almennt reynslan annars staðar frá að slíkt sé besta leiðin til þess að draga úr áhrifunum sem fylgja einangrun, þar sem hefur vantað upp á samgöngurnar.

Varðandi fiskveiðistjórnarkerfi erum við auðvitað komin í ákveðna stöðu með það kerfi sem hefur þróast þannig að það má segja að það sé að sumu leyti álitlegt eða til bóta að einhverju leyti, en að öðru leyti eru menn komnir í töluverðar ógöngur eins og við sjáum með afleiðingar af framsalinu. Þess vegna hef ég viðrað þær hugmyndir að taka frá ákveðinn hluta veiðiheimildanna, a.m.k. 5%. Við erum með um 400 þúsund tonn í þorskígildi og ef við værum með um 20 þúsund tonn að lágmarki, sennilega þyrfti það að vera meira, þá gætum við dreift þeim út til þeirra sjávarbyggðarlaga þar sem hefur verið samdráttur. Það er svo sem engin ástæða til þess að nota þær til þess að skapa atvinnu eða tekjur í byggðarlögum þar sem vel hefur gengið vegna þess að ný atvinnutækifæri hafa komið til. Með þessu móti gætu menn annaðhvort fengið tekjur af útleigu veiðiheimildanna eða notað þær til þess að leyfa nýjum aðilum og þeim sem fyrir eru á staðnum að nýta þær og lækka þannig kostnað (Forseti hringir.) við að afla veiðiheimilda, sem er grundvallaratriði.