132. löggjafarþing — 63. fundur,  9. feb. 2006.

Stefnumótandi byggðaáætlun 2006--2009.

391. mál
[19:34]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson er greinilega raunsæismaður í samgöngumálum milli lands og Eyja, a.m.k. meiri raunsæismaður en félagar hans í þingflokki Framsóknarflokksins, þeir hæstv. ráðherra Guðni Ágústsson og hv. þm. Hjálmar Árnason. En ég held að það hafi verið á síðasta ári sem þeir kynntu á fundi í Vestmannaeyjum hugmyndir um að fara á milli lands og eyja í gasblöðru eða loftskipi, sem ég hygg að hafi nú verið hálfgerðar skýjaborgir og menn hafa reyndar ekki rætt neitt síðan þá. Ég vona bara að menn komist sem allra fyrst niður á einhverja raunhæfa lausn í samgöngumálum Vestmannaeyja því ég tel að Vestmannaeyjar séu þannig samfélag hér á Íslandi að það beri að gera allt sem við getum til þess að halda byggð þar uppi. Þetta er dugmikið og ákaflega merkilegt samfélag og fallegur staður og Vestmannaeyjar eiga það svo sannarlega inni hjá þjóðinni allri að þeim sé hjálpað á erfiðleikatímum. Þetta byggðarlag hefur skilað mjög miklum tekjum, það eru sennilega fá byggðarlög eða bæjarfélög á landinu sem hafa skilað jafnmiklum tekjum til þjóðarbúsins á síðustu áratugum og þessi blómlega byggð við suðurströnd Íslands.

Varðandi breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu þá held ég að það væri alls ekki vitlaust að skoða hvort ekki væri rétt að taka frekar ákveðnar tegundir út úr kvóta í staðinn fyrir að taka út ákveðna prósentu af kvótum eða aflaheimildum. Það er ekkert sem mælir til að mynda með því að ýsa sé í kvóta í dag, né ufsi eða tegundir eins og steinbítur, jafnvel skötuselur, keila eða langa. Þessar tegundir þurfa ekkert að vera í kvótum og við (Forseti hringir.) ættum frekar að skoða það.