132. löggjafarþing — 63. fundur,  9. feb. 2006.

Stefnumótandi byggðaáætlun 2006--2009.

391. mál
[20:00]
Hlusta

Hlynur Hallsson (Vg):

Frú forseti. Við erum komin undir lok þessarar umræðu um framvindu byggðaáætlunar fyrir árin 2002–2005 og stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2006–2009. Nú er þessi mikla tillaga til þingsályktunar mjög almennt orðað plagg og ég merkti við nokkur atriði eins og að oft koma fyrir orð eins og „hugað verði að“, „kannaðir kostir þess“, „greindir möguleikar“, „stuðlað að“, aftur „stuðlað að“, „unnið verði markvisst að“ jafnvel, „kannað verði“, „gerð verði úttekt“ og „beiti sér fyrir“. Það er kannski eðlilegt að í svona tillögu séu hlutirnir einmitt orðaðir svona en ég held að ríkisstjórnin þurfi hins vegar að taka sig aðeins á í að framfylgja þessum góðu fyrirætlunum þannig að ekki sitji hún við orðin tóm.

Þetta eru 23 liðir og eins og ég sagði í fyrri ræðu minni í dag er margt þarna sem er alveg ljómandi gott og gæti verið beint upp úr stefnuskrá Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Það er talað um bættar samgöngur, að þær séu mikilvægar, vaxtarsamningarnir líka, efling menningarstarfsemi og að gerðir verði menningarsamningar við sveitarfélög. Það er dálítið merkilegt reyndar að t.d. hefur ekki enn þá verið gerður menningarsamningur við Eyþing. Við vorum einmitt að tala um það um daginn í fyrirspurnatíma. Efling þjónustu við innflytjendur og aukin fjölmenning eru einmitt mjög mikilvæg mál. „Kannað verði að frumkvæði heimamanna í hverjum landshluta hvort kostur sé á að stofna þjónustumiðstöðvar fyrir innflytjendur.“ Þetta er mjög brýnt verkefni, við þurfum að nota þennan mannauð sem hefur verið að myndast, ekki síst úti á landi. Uppbygging ferðaþjónustu fær ágætiskafla og svo auðvitað stuðningur við atvinnurekstur kvenna og styrking skapandi greina. Það er nú jákvætt mitt í allri álvers- og stóriðjuumræðunni að í tillögunni sé þó líka kafli um hinar skapandi greinar.

Hér segir að áherslur í byggðaáætlun fyrir árin 2002–2005 byggist á eftirtöldum fimm meginstoðum:

„Traustu og fjölbreyttu atvinnulífi, öflugum byggðarlögum, aukinni þekkingu og hæfni, bættum samgöngum og áherslu á sjálfbæra þróun.“

Þetta eru frábær markmið. Og núna á að leggja áherslu á fjóra hluti:

„1. Gildi menntunar og menningar.

2. Aukna nýsköpunar- og atvinnuþróunarstarfsemi.

3. Bættar samgöngur og fjarskipti.

4. Styrkingu landshlutakjarnanna Akureyrar, Ísafjarðar og Miðausturlands.“

Þetta er auðvitað allt hið besta mál. Við vitum að það er afar mikilvægt að hafa sterka byggðarkjarna. Akureyri er eitt af fáum sveitarfélögum þar sem hefur fjölgað á síðustu árum þó að fjölgunin hafi verið lítil. Hins vegar verður að passa það að Akureyri t.d. gíni ekki yfir litlu sveitarfélögunum í kring. Það hefur oft viljað til. Það eru einmitt sömu flokkar í bæjarstjórn á Akureyri og mynda ríkisstjórn og það er dálítill — já, ég held að ég segi það bara — hrokatónn í stjórnvöldum þar og það fer auðvitað ekkert vel í litlu sveitarfélögin í kring og kom berlega í ljós í kosningu um sameiningu Eyjafjarðar sem var auðvitað kolfelld á flestum stöðum. Nú hafa Siglufjörður og Ólafsfjörður sem betur fer samþykkt sameiningu.

Það er talað um eflingu sveitarstjórnarstigsins sem var einmitt kosið um síðasta haust. Og hvernig fór? Það mistókst hrapallega enda er ekki eðlilegt að svelta sveitarfélögin til sameiningar. Sameiningin verður að koma frá sveitarfélögunum sjálfum, þau verða að finna kostina í því að sameinast en hugmyndin getur ekki komið með einhverri stjórnvaldsaðgerð að ofan. Nú geispar hæstv. iðnaðarráðherra mjög, ég vona að það sé bara vegna þess að hún hafi farið seint að sofa í gærkvöldi en ekki að ræða mín sé svona leiðinleg. (Gripið fram í: Nei …) Er það ekki? Takk fyrir það.

Hér er talað um bætt fjarskipti og þetta er einmitt mjög mikilvægt.

„Unnið verði áfram að því að tryggja fjarskipti og bæta gagnaflutningsmöguleika á landsbyggðinni í samræmi við fjarskiptaáætlun og stuðlað að því að jafnaður verði mismunur á kostnaði við flutningana.“

Þetta er einmitt það sem fyrirtæki úti á landi hafa kvartað undan, t.d. fyrirtækið Þekking á Akureyri, kvartað undan ósamkeppnishæfum hlutum, að það bitni á fyrirtækjum úti landi hvað þessi fjarskiptaþjónusta er dýr. Þetta er mjög miður vegna þess að þetta eru einmitt tilvalin störf sem algjörlega óháð búsetu geta orðið til og þar með getur maður nýtt kostina við það að búa úti á landi, stuttar vegalengdir, ódýrt húsnæði, stöðugt vinnuafl o.s.frv.

Ég fór aðeins í fyrri ræðu minni, og reyndar í andsvörum við upphafsræðu hæstv. iðnaðar- og byggðamálaráðherra, nokkrum orðum um vaxtarsamningana. Það er afar mikilvægt að árangur af samningunum verði metinn reglulega. Mér finnst að nú séum við komin að þeim punkti að við þurfum að fara að meta árangur af þessum vaxtarsamningum og ef raunverulegur árangur hefur ekki náðst verður að grípa til einhverra aðgerða, framlengja jafnvel, gera nýjan samning og bretta upp ermarnar. Það er talað um stöðu byggðarlaga sem búa við viðvarandi fólksfækkun. Á Miðausturlandi þar sem fólki hefur sem betur fer fjölgað þó að Austfirðingum, Íslendingum búandi á Austurlandi, hafi reyndar fækkað áfram — þeir flytja áfram í burtu og allt unga menntaða fólkið sem átti að flytja aftur til Miðausturlands er ekki enn þá flutt þangað aftur. Við skulum þó vona að það fari að gerast vegna þess að ef svo verður ekki er allt þetta stóriðjubrölt til einskis. Hins vegar líða sveitarfélögin í kring fyrir þessa stóru stjórnvaldsaðgerð sem álverið og stíflan á Kárahnjúkum er. Á suðurfjörðunum er fólk ekki eins bjartsýnt eða t.d. á Vopnafirði. Þetta eru hlutir sem við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði bentum alltaf á. (Iðnrh.: Allt að lyftast á Vopnafirði.) Það er allt að lyftast á Vopnafirði, segir hæstv. ráðherra, og við skulum vona að svo sé. Fylgi Framsóknarflokksins er hins vegar alveg pottþétt ekki að lyftast þar.

Nýsköpunarmiðstöðin á Akureyri er afar jákvæður punktur í þróun síðustu ára. Það að henni hafi verið komið á er dæmi um jákvæða byggðastefnu og ég lýsi yfir sérstakri ánægju með það. Það er talað um að byggja upp þekkingarsetur og háskólann og talað um að þekkingarsetrin hafi öflugan bakhjarl í hliðstæðri starfsemi á höfuðborgarsvæðinu. Ég held hins vegar að við eigum að stefna að sjálfstæðum háskólum í þessum kjörnum, á Ísafirði og Egilsstöðum. Við höfum dæmi um Háskólann á Akureyri sem hefur tekist mjög vel til með. Það eina sem háir honum er að fá ekki nægilegt fjármagn til vaxtar sem er auðvitað miður út af fyrir sig, þ.e. að stjórnvöld hefti uppgang Háskólans á Akureyri en hann er skýrt dæmi, allir sammála um það, um jákvæða aðgerð, ekki bara í byggðamálum heldur í atvinnumálum og menntamálum úti á landi. Þetta er ódýrasti háskóli á landinu, það er staðreynd.

Efling menningarstarfsemi er einn kafli. Það var ákveðið fyrir nokkrum árum að reisa menningarhús á fimm stöðum á landsbyggðinni, Ísafirði, Skagafirði, Akureyri, Austurlandi og Vestmannaeyjum. Lengst er það komið á Akureyri, ekkert hús er þó risið enn þá. Við megum hins vegar ekki gleyma því að menning er ekki bara hús. Menning er ekki bara steypa en það virðast alltaf vera til nógir peningar þegar á að byggja hús og verktakarnir eru kallaðir til, en menning kemur frá fólkinu sjálfu. Það eru litlu leikfélögin, fólk sem starfar um helgar og á kvöldin, allar myndlistarsýningarnar, tónleikar úti um allt — þetta er menningarstarfsemi sem ber að styðja við bakið á vegna þess að þetta er það sem gerir það eftirsóknarvert að búa úti á landi, virkilega eftirsóknarvert.

Í kafla um heilbrigðisþjónustu er talað um að flytja verkefni frá ríki til sveitarfélaga og það finnst mér mjög jákvætt. Hins vegar verður auðvitað fjármagn að fylgja með svo að það verði ekki eins og með grunnskólann. Við vitum öll að þegar grunnskólinn var fluttur frá ríki til sveitarfélaga var hann stórbættur. Við erum með miklu betri grunnskóla í dag en fyrir nokkrum árum. Hins vegar fylgdi ekki fjármagn að sama skapi og þess vegna er rekstur grunnskólans mjög erfiður fyrir mjög mörg lítil sveitarfélög. Þetta verður að laga.

Efling þjónustu við innflytjendur og aukin fjölmenning, eins og ég kom inn á áðan, er mjög mikilvæg. Þar hafa verið gerðir góðir hlutir, t.d. á Ísafirði og með Alþjóðastofu á Akureyri sem var að vísu þangað til fyrir skömmu með allt of lágt starfshlutfall, aðeins hálft starf. Sem betur fer er búið að auka það upp í heilt starf og veitir ekki af vegna þess að nýjum Íslendingum fjölgar mjög mikið á Eyjafjarðarsvæðinu.

Uppbygging ferðaþjónustu er auðvitað eitt af því sem er mjög mikilvægt í þessum efnum. Við verðum að sjá til þess að landkynning verði ekki aðeins miðuð við suðvesturhornið eins og hefur verið að verulegu leyti hingað til. Nú er Iceland Express farið að fljúga beint til Akureyrar og þá verður að sjá til þess að það flugfélag fái hluta af því fjármagni sem veitt er til landkynningar, að það verði ekki bara Flugleiðir, eða Icelandair eins og það heitir núna, sem fái allt fjármagnið og leggi áfram aðaláherslu á að auglýsa upp suðvesturhornið.

Það er sérstakur kafli um styrkingu skapandi greina. Það er mjög jákvætt. Til hinna skapandi greina teljast listsköpun, hönnun, fjölmiðlun, tölvunarfræði, verkfræði, tæknifræði, húsagerðarlist, kennsla, útgáfur, sýningarhald, stjórnun og starfsemi tengd listviðburðum. Richard nokkur Florida hefur skrifað um það merka bók sem hefur vakið verðskuldaða athygli að 21. öldin verði öld hinna skapandi greina, ekki þungaiðnaðar eða iðnbyltinga. Þar erum við 50 árum á eftir tímanum. Hins vegar eigum við að leggja áherslu á hinar skapandi greinar. Þar verður vöxturinn í framtíðinni og við megum ekki heltast úr lestinni í þeim efnum.

Í skýrslunni sem einnig er rædd hér samhliða er fjallað um hvernig hafi gengið síðustu árin. Það er dálítið athyglisvert að kíkja á það. Reyndar hefur verið fjallað um það í mörgum ræðum í dag að sumt hefur bara alls ekki gengið eftir, því miður, jafnvel þó að ríkisstjórnin hafi sett sér þessi markmið hefur hún ekki staðið við þau. Hér er bent á að ekki eru settir fram í byggðaáætluninni mælikvarðar sem hægt er að bera árangur við. Hv. þm. Þuríður Backman kom einmitt inn á að þetta vantar enn þá í nýju þingsályktunartillögunni. Einnig kemur fram sú skoðun að byggðaáætlun sé til of skamms tíma og þyrfti að vera t.d. til 12 ára líkt og samgönguáætlun. Síðan er gefin út ný byggðaáætlun og hún er aftur til þriggja ára þannig að mér finnst að menn geri sömu mistökin aftur.

Í sambandi við flutning opinberra verkefna og þjónustu út á land var tveim alþingismönnum, stendur hér, Halldóri Blöndal og Magnúsi Stefánssyni, gert að vera með í ráðum hjá forsætisráðherra um framkvæmd þessarar aðgerðar. Hins vegar finnst mér allt of lítill árangur hafa komið fram í þessum tillögum. Hérna er talið upp eitt og annað, en margt af þessu hefur alls ekki komið til framkvæmda. Nú er komið fram frumvarp frá ríkisstjórninni um Matvælarannsóknir á Akureyri en þar er t.d. ekki gert ráð fyrir því að hún verði á Akureyri frekar en Lýðheilsustöð (Forseti hringir.) sem hefði verið upplagt að setja niður á Akureyri.

Það er samt bjartsýnistónn í þessu og ég vona að betur gangi (Forseti hringir.) að framfylgja þessari nýju áætlun. (Gripið fram í.) (Iðnrh.: Það verði bjartara.)