132. löggjafarþing — 64. fundur,  10. feb. 2006.

Ummæli ráðherra í umræðu um byggðamál.

[10:46]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Það verður að segjast eins og er að hæstv. byggðamálaráðherra átti mjög slæman dag í gær. Ég hefði talið að hún hefði átt að koma hér og biðjast afsökunar og ég er viss um að fólk hefði fyrirgefið henni. En því miður virðist eins og viðkomandi kunni ekki að skammast sín.

Umræðan í gær byrjaði með því að hæstv. ráðherra flutti hér hofmóðug ræðu í þriðja skiptið, sömu ræðuna. Þegar henni var bent á það varð hún drýldin og það fór fyrir brjóstið á henni, það var það sem gerðist. Ekki varð hún glaðari í bragði þegar flokksbróðir hennar tók undir með stjórnarandstöðunni og benti á að þessar tillögur væru hvorki fugl né fiskur og til þess að ná árangri í byggðamálum þyrfti að taka á í sjávarútvegsmálum. Það var það sem gerðist, þetta fór einfaldlega fyrir brjóstið á henni. Þetta var ekki ómálefnaleg umræða, langt, langt í frá.

Þess ber að geta að Valgerður Sverrisdóttir, hæstv. iðnaðarráðherra, er ekki fyrir eitthvert dundur í sjávarútvegsmálum, hún vill stórar lausnir. Henni finnst það föndur ef verið er að ræða um sjávarútvegsmál, hún vill helst hafa nógu mikið af álverum. En ég verð að segja það, og þykir miður, að ég fæ reglulega bréf frá fólki í þessum sjávarbyggðum, og síðast í morgun frá Bíldudal. Í þeim kemur fram að fólki þykir nóg um. Það er verið að rétta því einhverja brauðmola og vekja einhverjar falsvonir og síðan gerist ekki neitt. Það er alvarleg staða sem er hér uppi og mér finnst viðbrögð hæstv. iðnaðarráðherra örvæntingarkennd. Þegar henni er bent á sannleikann, þegar hún þarf að hlusta á hann í heilan dag, þá verður hún reið og skammast.

Hvernig væri nú að líta í eigin barm og horfa á það hvers konar vinnubrögð það eru, frú forseti, að senda hér til umræðu sömu skýrsluna þriðja árið í röð lítt breytta, eins og staðan er í byggðamálum? Mér finnst það ekki vera hæstv. ráðherra til sóma og hvað þá hvernig hún lauk umræðunni í gærkvöldi.

(Forseti (JBjart): Forseti minnir þingmenn á að ávarpa ráðherra á viðeigandi hátt.)