132. löggjafarþing — 64. fundur,  10. feb. 2006.

Ummæli ráðherra í umræðu um byggðamál.

[11:00]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegi forseti. Það er eiginlega erfitt að finna hugsunum sínum orð í þessari umræðu. Vegna þess að svo virðist vera að hæstv. byggðamálaráðherra bæti bara hér í, sýni ótrúlegan dónaskap við þingmenn sem átti sér stað og ég hef hér gert að umtalsefni. Ég ætla ekki að ræða um fundarstjórn forseta í gær. Það hefur verið skýrt út. Og er gott mál.

Ég vil líka vekja athygli á því, virðulegi forseti, að upp í huga minn kom að hæstv. byggðamálaráðherra, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, kom í ræðustól ekki alls fyrir löngu og baðst innilegrar afsökunar á því sem hún hafði þá gert, verið með vitlausar upplýsingar til þingsins. Það mál féll þar niður. En það hefur ekki verið gert hér, heldur bætt í. Þetta er ótrúlegur dómgreindarskortur og dónaskapur við þingmenn vil ég segja enn einu sinni og vil segja það eitt, kannski við hæstv. byggðamálaráðherra, virðulegi forseti, að sá sem stráir nálum skyldi varast að ganga berfættur.

Ég las það í Morgunblaðinu í morgun að ritstjóri Jótlandspóstsins hafi tekið menningarritstjóra sinn sem hafði gert allt vitlaust og sent hann í langt frí. Mín lokaorð skulu vera þau að ég held að hæstv. forsætisráðherra ætti að hugleiða þá aðgerð sem ritstjóri Jótlandspóstsins gerði þar.