132. löggjafarþing — 64. fundur,  10. feb. 2006.

Ummæli ráðherra í umræðu um byggðamál.

[11:01]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Mér finnst hv. þingmenn mjög viðkvæmir gagnvart því sem ég sagði í gær. Þegar ég er búin að fá á mig gagnrýni nánast stanslaust í átta klukkutíma að þá heyrist mér að fundið sé að því að ég verjist, ég svari. En ég geri mér grein fyrir að Samfylkingin er ekki sterk á taugum þessa dagana og það kom ljóslega fram í gær að mikill ágreiningur er innan flokksins í mikilvægum málaflokkum eins og í byggðamálum, sjávarútvegsmálum, stóriðjuframkvæmdum og stóriðjumálum og öðru slíku. Það er í sjálfu sér hægt að velta sér dálítið upp úr því en ég lét það vera.

Ég held að þeir sem ekki voru hér í gær og ekki fylgdust með þeirri umræðu eigi mjög erfitt með að dæma hana. Það gerði ég hins vegar. Ef ég var ekki hér í salnum var ég í þingflokksherbergi þar sem ég fylgdist með af skjá. Ég veit því alveg hvernig þessi umræða var. Kannski má segja að þessi stutta umræða sem fram hefur farið í dag sé svona útdráttur úr þeirri umræðu. Hér hefur t.d. verið talað um lygi og önnur orð hafa verið látin falla. Það var spegilmyndin af því sem fór fram í gær. Þetta er svona styttri útgáfan.

Það sem ég sagði áðan og endurtek núna er að byggðamálin eiga betra skilið en umræðu eins og fór fram í gær þegar engar tillögur koma fram (Gripið fram í: Það er ekki rétt.) frá hv. þingmönnum stjórnarandstöðunnar. Það er bara skammast og rifist, þingmaður eftir þingmann, í fleiri klukkutíma. Þetta er ekki umræða. Þetta kalla ég ekki umræðu. Ég stend við það. En mér hefur oft dottið í hug að ýmislegt sem sagt hefur verið hér og gert, sé þinginu ekki til sóma. Mér hefur oft fundist að efast megi um það. Ef ég hef látið einhver orð falla í gær (Forseti hringir.) sem eru þinginu ekki til sóma þá þykir mér það leitt.