132. löggjafarþing — 64. fundur,  10. feb. 2006.

Stóriðjustefna ríkisstjórnarinnar og afleiðingar hennar.

[11:14]
Hlusta

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Frú forseti. Þegar við ræðum um þau mál sem hér eru til umfjöllunar erum við ekki aðeins að ræða um virkjanir og dauðan málm. Við erum að tala um hagsmuni fólks, áhugamál byggðarlaga, áhugamál fyrirtækja sem sjá fyrir sér ýmsa möguleika í framtíðinni varðandi atvinnuuppbyggingu. Það er því miður allt of snemmt að segja til um það hvað verður úr þeim áformum sem nú eru uppi. En ég geri ráð fyrir því að full alvara sé að baki. Auðvitað geta menn gefið sér þar ýmsar forsendur.

Ég býst við því að hægt sé að gefa sér þá forsendu að það verði úr stækkun á Grundartanga um 40 þús. tonn. Við gætum líka hugsanlega gefið okkur þá forsendu að tveir af þeim kostum sem þarna er verið að tala um gætu komið til framkvæmda fram til ársins 2015, þ.e. um 500 þús. tonna framleiðslu af áli til viðbótar. Ég get ekkert fullyrt um það en ef við gefum okkur þá forsendu, hvað er þá verið að tala um? Þá er verið að tala um fjárfestingu sem gæti verið á bilinu 250–300 milljarðar. Við skulum segja 300 milljarðar. Við erum þá að tala um að skapa varanleg störf í landinu, u.þ.b. 2.500 vel borguð störf, hálaunastörf, og við erum að tala um hagvöxt, umfram það sem annars yrði, upp á 6%. Ef þetta yrði gæti meðalfjárfesting á ári í þessum greinum orðið í kringum 30 milljarðar kr. Það eru ekki tölur sem valda neinum vandamálum að mínu mati í sambandi við gengi krónunnar eða verðbólgu. Við þurfum einfaldlega að velta því fyrir okkur hvernig við viljum skapa hér störf á næstu árum og áratugum og hvort við viljum nýta þær auðlindir sem orkan er.

Nú má vel vera að einhverjir í þessu landi vilji ekki gera það. Ég þekki enga þjóð sem á olíuauðlindir og vill ekki nýta þær. Það liggur alveg ljóst fyrir að ef t.d. Norðmenn nýttu ekki olíuauðlindir sínar með þeim hætti sem þeir gera í dag hefði það áhrif á þjóðarbúið. Ég tel að orkan sé olíuauðlind Íslendinga og ég tel ekkert vit í því fyrir framtíð landsins að nýta ekki þá mikilvægu auðlind. Við þurfum hins vegar að gera það skynsamlega, við þurfum að gera það þannig að allt efnahagslífið njóti góðs af og að það verði til þess að bæta kjör fólksins í landinu.

Nú halda menn því fram að virkjunarframkvæmdir séu jafnvel ekki arðbærar. Menn halda því fram að Kárahnjúkavirkjun sé ekki arðbær. Það kemur fram í útreikningum Landsvirkjunar að heildarávöxtun þessarar framkvæmdar er 6,7%. Þeir taka lán til framkvæmdarinnar fyrir rúm 5%. Þeir miða við þessa arðsemi, miða við að verð á áli sé 1.650 dollarar á tonnið en núna er það 2.400–2.500 dollarar. Við skulum gefa okkur þá forsendu að meðalverðið næstu 20 árin verði aðeins 1.650 dollarar, sem ég tel ótrúlegt og leyfi mér að spá því að það verði hærra þó að ýmsum líki nú ekki spádómar mínir, (KLM: Þar eru bara sjálfstæðismenn.) og hvað erum við þá að tala um? Við erum að tala um enga áhættu. (Gripið fram í: Ha?) Og þá er ljóst að eftir 40 ár, þegar búið verður að fullafskrifa þessa virkjun, verða tekjur hennar hreinn hagnaður eins og núna er af Búrfellsvirkjun. Það er búið að fullafskrifa Búrfellsvirkjun, hún er betri núna en hún var fyrir 40 árum, endist a.m.k. í 100 ár til viðbótar þannig að í reynd er ekkert annað að gera en að taka við peningunum sem hún framleiðir. Þetta verða menn að hafa í huga þegar verið er að tala um arðsemi virkjana. Það er ekki hægt að líkja því við (Forseti hringir.) það að kaupa flugvél eða fiskiskip.