132. löggjafarþing — 64. fundur,  10. feb. 2006.

Stóriðjustefna ríkisstjórnarinnar og afleiðingar hennar.

[11:24]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ekki fer á milli mála að með stóriðju, mest í álverum, hafa orðið til fjöldamörg störf og þeim fjölgar mikið með stækkun Norðuráls í Hvalfirði og með Reyðaráli á Reyðarfirði. Á þeim landsvæðum þar sem starfsemin nýtur góðs af framleiðslunni fylgja margfeldisáhrif í öðrum störfum og nýrri tækni. Þrátt fyrir þessi jákvæðu áhrif valda þau stórvirki sem nú eru á framkvæmdastigi öðrum útflutningsgreinum og sjávarútvegi, iðnaði og nýsköpunarfyrirtækjum svo miklum erfiðleikum að þar hætta menn jafnvel starfsemi og stefna með þá atvinnu út úr landinu. Nú þarf að staldra við, hæstv. forseti, og huga að því hvernig eigi að ganga vegferðina til framtíðar.

Við í Frjálslynda flokknum höfum samþykkt svofellda ályktun í miðstjórn, með leyfi forseta:

„Miðstjórn Frjálslynda flokksins telur að gaumgæfa beri mjög vel fyrirhugaðar virkjanir eða áformaðan vöxt áliðnaðar á Íslandi.

Frekari uppbygging stóriðju er vandasamt verk og taka ber fullt tillit til náttúru, landnytja og mengunar þegar virkjunarkostir eru skoðaðir og ákveðin frekari stóriðja.

Sérstaklega þarf að huga að afleiðingum stóriðjustefnu fyrir aðrar atvinnugreinar.“

Við fáum af því fréttir daglega, því miður, að hefðbundin atvinnustarfsemi sé að gefast upp. Síðast í gær kom til okkar fólk til að segja okkur af því að sjávarútvegsfyrirtæki sem það hefur rekið með hagnaði í mörg ár væri sennilega að loka. Við horfum á afleiðingarnar í rækjuiðnaðinum, og við horfum á það og heyrum hjá forustumönnum í iðnfyrirtækjum að þeir stefna jafnvel með atvinnustarfsemi sína út úr landinu.

Við þurfum virkilega að skipuleggja verk okkar inn í framtíðina og horfa til þess með gætni hvernig við förum þá vegferð.