132. löggjafarþing — 64. fundur,  10. feb. 2006.

Stóriðjustefna ríkisstjórnarinnar og afleiðingar hennar.

[11:33]
Hlusta

Halldór Blöndal (S):

Frú forseti. Það var einu sinni sagt hér í þessum sal frá einum þingmanni til annars: Ertu að segja brandara? Þegar hv. þingmaður Samfylkingarinnar lýsti því eftir ræðu hv. þm. Þórunnar Sveinbjarnardóttur að stefna Samfylkingarinnar hefði sérstaklega komið fram í orðum hæstv. forsætisráðherra og hæstv. utanríkisráðherra hér áðan fann maður að hv. þingmaður Sunnlendinga var að reyna að segja brandara.

Það er auðvitað svo (Gripið fram í.) að þegar við ræðum álmálin þá erum við að tala öðrum þræði um gjaldeyrisöflun og almenna uppbyggingu í atvinnulífi. Hins vegar, eins og gert var á Austurlandi og eins og fram hefur komið m.a. í ummælum hv. 9. þm. Norðaust., erum við að tala um átak í byggðamálum. Það kom glögglega fram, bæði hjá hæstv. forsætisráðherra og hæstv. utanríkisráðherra, að svigrúm er til þess innan okkar efnahagslífs að halda áfram áluppbyggingu hér á landi. Það hefur líka komið fram að það er svigrúm til þess vegna skuldbindinga okkar í Kyoto-bókuninni að reisa 200–250 þús. tonna álver á Norðausturlandi, sem ég vil stefna að. Það er athyglisvert að Húsvíkingar og Akureyringar hafa náð samstöðu um þessi mál. Þetta er það sem skiptir höfuðmáli. Það er lengi hægt að reyna að etja einstökum atvinnugreinum saman. En einn gleggsti votturinn um að ástand í þjóðfélagi sé gott er þegar stjórnarandstaðan er öll sammála um að ekki þurfi að hafa áhyggjur af atvinnuuppbyggingu, ekki þurfi að hafa áhyggjur af því að skapa ný störf. Álver skapa störf fyrir mjög vel menntað fólk sem þörf er á hér á landi, byggir upp byggðarlög með jákvæðum hætti, hefur góð áhrif á samskipti verkalýðsfélaga og atvinnurekenda eins og fram hefur komið (Forseti hringir.) m.a. í Hvalfirði, ef hv. þm. Hlynur Hallsson vildi kynna sér það.