132. löggjafarþing — 64. fundur,  10. feb. 2006.

Stóriðjustefna ríkisstjórnarinnar og afleiðingar hennar.

[11:38]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Það sem ég kalla hér eftir er ábyrgð. Ég kalla hér eftir ábyrgð stjórnvalda en ekki draumum og draumförum. Hæstv. forsætisráðherra talaði um fólk. Við erum nefnilega að tala um fólk. Við erum að tala um fólk í hinum ýmsu atvinnugreinum landsins. Við erum að tala um fólk í hinum ýmsu byggðarlögum sem nú er að missa eigur sínar, sem nú er að missa atvinnu sína.

Við deilum ekki um að það sé hægt að byggja hér, ef vilji er til og menn eru reiðubúnir að fórna hverju sem er, fleiri álver. Það sem ég bendi hér á og vitna til forustumanna í íslensku atvinnulífi er að það verður ekki gert nema að fórna öðru á móti. Álver voru byggð fyrst til að auka fjölbreytni í atvinnulífi. Er þess þörf nú? Munu fleiri álver auka fjölbreytni í atvinnulífi Íslendinga? Nei, æ fleiri benda á að það muni skapa aukna einhæfni, hættulega einhæfni.

Hæstv. utanríkisráðherra sagði að það yrðu ekki byggð fleiri álver, það yrði skoðað að það ryðji ekki öðru burt. Ég vona svo sannarlega að það verði skoðað. Má ég síðast vitna hér einmitt í Morgunblaðið, forustugrein í gær:

„Fyrirtæki í útflutningi, bæði sjávarútvegs- og iðnfyrirtæki og ekki síst hátæknifyrirtæki, hafa á undanförnum missirum kvartað undan stöðu gengisins og bent á að með óbreyttu gengi væri grundvellinum kippt undan starfsemi þeirra.“

Það er því mjög eðlilegt að aðrar atvinnugreinar hafi áhyggjur af rekstrarskilyrðum sínum nú við þær aðstæður ef haldið er áfram á þessari stóriðju- og álbraut. Ég tel, frú forseti, að það eigi að hlusta á raddir atvinnulífsins, varnaðarorð atvinnulífsins.