132. löggjafarþing — 64. fundur,  10. feb. 2006.

Stóriðjustefna ríkisstjórnarinnar og afleiðingar hennar.

[11:40]
Hlusta

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Frú forseti. Vandinn í þessu máli um þessar mundir er sá að þær fjárfestingar sem við erum í koma að langmestu leyti á árin 2004–2006, eða að meðaltali um 60 milljarðar á ári. Það veldur vissulega spennu í efnahagslífinu þó aðrir þættir valdi þar enn meiri spennu. Ég tel að það eigi að forðast að farið sé í framkvæmdir með þeim hætti, eins og við höfum þurft að gera í sambandi við framkvæmdirnar á Austurlandi. Það verður þá að hafa það í huga að það hefur verið leyst að verulegu leyti með erlendu vinnuafli þannig að það hefur ekki reynt jafnmikið á innlent efnahagslíf. En ef okkur tekst að skipuleggja framkvæmdir á næsta áratug með þeim hætti að meðalfjárfesting í virkjunum og hugsanlegum iðnaði sé í kringum 30 milljarðar á ári þá tel ég að það valdi engum sérstökum vandamálum í efnahagslífinu. Þá standa menn einfaldlega frammi fyrir því hvort menn vilja þau störf sem þar eru í húfi.

Hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir leyfir sér að koma hér upp og segja að þetta séu hagsmunir Framsóknarflokksins. Eru það einhverjir sérstakir hagsmunir Framsóknarflokksins að líta með velvilja á vilja aðila í Hafnarfirði? Eru það einhverjir sérstakir hagsmunir Framsóknarflokksins að vilja líta með velvilja á áhugamál fólks á Norðurlandi? Hvers konar málflutningur er þetta eiginlega? Er nema von að menn spyrji: Hvar er Samfylkingin stödd í þessum málum? Hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir talaði með þeim hætti að það ætti alls ekki að líta með neinum velvilja á þennan vilja byggðarlaganna og fólksins. Ég heyri ekki betur en að talsmenn Vinstri grænna álíti það líka.

Á ríkisstjórnin að haga sér þannig að þegar fólk úr ákveðnum byggðarlögum kemur með sín áhugamál og fyrirtæki þá segi hún bara nei? Það komi ekki til greina. Menn geti bara búið við það að hafa enga vinnu. Er það þannig sem ríkisstjórnin á að haga sér? (Gripið fram í.)