132. löggjafarþing — 64. fundur,  10. feb. 2006.

Heimild til að afsala til Landsvirkjunar vatnsréttindum og landi vegna Búrfellsvirkjunar.

456. mál
[11:57]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég er á svipuðum nótum og hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson í þessu. Ég skildi einmitt þjóðlendulögin og markmið þeirra þannig að þar væri ætlunin ekki aðeins að skýra eignarhald á landi og auðlindum heldur væri það einnig meiningin að það væri það sem ríkið mundi eiga. Ég get ekki séð að það ætti að vera nauðsynlegt að afsala til Landsvirkjunar beinum eignarréttindum eins og kveðið er á um.

Nú er það þannig að Landsvirkjun er í eigu opinberra aðila, í eigu ríkisins og tveggja sveitarfélaga, stórra sveitarfélaga. Það má segja að hún sé með þessu þjóðareign sem við viljum leggja áherslu á að verði áfram. Þá vil ég spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort ekki hafi farið fram neinar viðræður milli eigenda Landsvirkjunar, ríkisins og þessara sveitarfélaga, um að leysa þetta mál með öðrum hætti eins og leigu á þessum réttindum, nýtingarrétti til ákveðins tíma sem gæti fullnægt eðlilegum þörfum og rekstrarskilyrðum Landsvirkjunar. Að mínu mati væri það miklu betri nálgun.

Ég bendi á þetta í því sambandi að nú er verið að tala um að einkavæða eða hlutafélagavæða raforkugeirann, hann þurfi að komast á samkeppnismarkað og þar á meðal náttúrlega Landsvirkjun. Þannig að aðstæður eru allt aðrar nú en var þegar Landsvirkjun var stofnuð sem klárt almannaþjónustufyrirtæki. Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra: Hefur þetta ekkert verið rætt á þessum nótum?