132. löggjafarþing — 64. fundur,  10. feb. 2006.

Heimild til að afsala til Landsvirkjunar vatnsréttindum og landi vegna Búrfellsvirkjunar.

456. mál
[12:02]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Eigi að taka orð hæstv. forsætisráðherra gild er frumvarpið alger tímaskekkja miðað við eignarhaldið eins nú er. Ég spurði hæstv. ráðherra hvort ekki hefðu farið fram neinar viðræður um þetta ákveðna atriði milli eignaraðila. Hæstv. ráðherra svaraði því ekki heldur fór að velta fyrir sér kaupum ríkisins á Landsvirkjun.

Ég get upplýst hæstv. forsætisráðherra um að þegar sú umræða var í gangi fyrir um ári þá kom hæstv. iðnaðarráðherra í fjölmiðla og lýsti því að markmið hennar væri að einkavæða og selja Landsvirkjun. Það var bara spurning um tíma.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur ályktað í sömu veruna. Þannig er það að Reykjavíkurborg, fólkið, eigi Landsvirkjun viss trygging fyrir því að ríkisstjórnin einkavæði ekki og selji Landsvirkjun. Hæstv. ráðherra sagði áðan að það stæði ekki til. Hið sama var sagt um Símann. Ég efast ekki um að ráðherra segi að ekki standi til að selja Landsvirkjun einmitt þegar hann segir það. En á morgun getur hæstv. ráðherra sagt allt annað. (Forseti hringir.) Það skulum við hafa í huga.