132. löggjafarþing — 64. fundur,  10. feb. 2006.

Heimild til að afsala til Landsvirkjunar vatnsréttindum og landi vegna Búrfellsvirkjunar.

456. mál
[13:00]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það má vel vera að þetta sé hinn klassíski vandi framsóknarmanna, að þegar fyrir dyrum stendur að afsala sér landi eða auðlindum í varanlegan tíma sé það svo sjálfsagt að fyrir þeim sé það ekkert mál. Það má vel vera. Kannski eru þeir svo blindaðir af einkavæðingar- og markaðshugsjónum í raforkukerfinu að þeir geti ekki séð eða horft til þátta sem þessara. Þá er það náttúrlega ekki bara þeirra vandamál. Versta vandamálið er að þeir skuli vera aðilar að ríkisstjórn landsins með iðnaðarráðherra og hæstv. forsætisráðherra sem horfa ekki til þess að vatnið sem auðlind á að vera eign framtíðarinnar, ekki söluvara. Náttúruauðlindir sem slíkar eiga ekki að vera markaðsvara, hvorki í nútíð né framtíð, en hæfilegur nýtingarréttur og möguleiki til þeirra umsvifa sem við erum ásátt um að verði gætt getur verið framselt til lengri eða skemmri tíma eftir atvikum.

En vatnið, auðlindin vatn, á að vera eign þjóðarinnar og á að vera eign framtíðarinnar.