132. löggjafarþing — 64. fundur,  10. feb. 2006.

Staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar.

329. mál
[13:34]
Hlusta

Frsm. minni hluta allshn. (Sigurjón Þórðarson) (Fl):

Herra forseti. Nefndarálit minni hlutans er stutt og laggott. Það hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Fulltrúar Frjálslynda flokksins eru fylgjandi því að kirkja og ríki verði aðskilin og telja það vart við hæfi að alþingismenn séu að fjalla um innri starfsreglur einstakra trúfélaga.“

Við erum á þeirri skoðun að það eigi að aðskilja ríki og kirkju og það eigi að gera trúfélögum jafnhátt undir höfðu. Eins og áður segir viljum við einfaldlega breyta þessu og teljum ekki við hæfi að við séum í því að ákveða svona innri starfsreglur. Eins finnst okkur ekki við hæfi að einstaka trúfélög séu að skipta sér af því hvernig önnur trúfélög haga sínum innri málefnum, varðandi vígslur samkynhneigðra og annað þess háttar.