132. löggjafarþing — 64. fundur,  10. feb. 2006.

Heimild til að afsala til Landsvirkjunar vatnsréttindum og landi vegna Búrfellsvirkjunar.

456. mál
[14:06]
Hlusta

Kjartan Ólafsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef fylgst með þessari umræðu í dag og ræðu hv. þm. Magnúsar Þórs Hafsteinssonar áðan þar sem hann fór nokkrum orðum um að honum fyndist eðlilegt að Suðurkjördæmi eða gamla Suðurlandskjördæmið fengi að njóta þeirrar orku sem framleidd er á Þjórsár-Tungnaársvæðinu. Þessu er ég hjartanlega sammála og hef lengi talað í sömu átt og hv. þingmaður gerði áðan.

Ég vil upplýsa hv. þingmann um að á vegum Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga er starfandi nefnd sem fékk nafnið stóriðjunefnd sem er að kanna þessi mál sérstaklega og fara yfir með hvaða hætti byggja megi upp orkufrekan iðnað í Suðurkjördæmi með tilliti til þess að nýta þá orku sem þar er, bæði raforku og hitaorku. Þau verkefni eru í gangi á vegum heimaaðila og ég vænti þess að það geti orðið eitthvert framhald á því og einhver niðurstaða sem leiði til þess að þar verði atvinnuuppbygging, sérstaklega við Þorlákshöfn, sem er sú höfn sem hugsanlega kann að verða útflutningshöfn ef þetta nær fram að ganga.

Á sama hátt eru menn á Reykjanesi að reyna að koma þeirri orku sem þar er í lóg og nýta hana til stóriðjuframkvæmda í Helguvík. Mér finnst því ofur eðlilegt að við leggjum mikla áherslu á það, þingmenn Suðurkjördæmis, að þessi orka verði notuð í kjördæminu og það á auðvitað að hafa forgang á okkar svæði.