132. löggjafarþing — 64. fundur,  10. feb. 2006.

Heimild til að afsala til Landsvirkjunar vatnsréttindum og landi vegna Búrfellsvirkjunar.

456. mál
[14:08]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Kjartani Ólafssyni fyrir að koma hér upp. Þetta var kannski ekki alveg andsvar við ræðu mína, frekar athugasemd eða hugsanlega framhald á ræðu minni fremur en beint andsvar. Hann var í raun og veru ekki að andmæla því sem ég sagði. Ég get alveg tekið undir það sem hann sagði hér. Það eru fyllilega réttmætar og góðar athugasemdir varðandi orkuna sem framleidd er á Suðurlandi að eðlilegt sé að það verði skoðað mjög gaumgæfilega hvort landshlutinn geti ekki einmitt notfært sér þessa orku betur en gert hefur verið til atvinnuuppbyggingar á svæðinu.

Mig langar þá til að nota tækifærið og spyrja hv. þm. Kjartan Ólafsson hvort hann hafi myndað sér skoðun á þeim hugmyndum sem ég varpaði hér upp um Búrfellsvirkjun, hvort honum þyki þá ekki eðlilegt að það sé skoðað að gera hreinlega samning við Landsvirkjun til lengri tíma um leiguafnot af svæðinu, að ríkið geri slíkan samning og að leigutekjum af þeim samningi verði síðan varið til góðra verka heima í héraði, þ.e. í nágrannahéruðum þessarar virkjunar, og heimamenn mundu þannig fá notið einhvers hluta af þeim tekjum sem munu sannarlega verða af þessari virkjun á næstu árum, því eins og málum er háttað í dag á að láta Landsvirkjun hafa þetta endurgjaldslaust. Það á ekkert að koma í staðinn, íbúar Suðurlands munu ekki eiga neitt í Landsvirkjun, það eru Reykjavíkurborg, Akureyrarbær og síðan auðvitað ríkið. Það er kannski helst með óbeinum hætti í gegnum ríkið sem íbúar Suðurlands munu eiga aðgang að Landsvirkjun en þar fyrir utan á ég erfitt með að sjá að þeir peningar sem koma í kassann fyrir þessa virkjun verði Sunnlendingum svo mjög til góða.