132. löggjafarþing — 64. fundur,  10. feb. 2006.

Heimild til að afsala til Landsvirkjunar vatnsréttindum og landi vegna Búrfellsvirkjunar.

456. mál
[14:10]
Hlusta

Kjartan Ólafsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég nefndi áðan að ég hefði fylgst með umræðunni en ekki kannski lagt mikið til hennar. Það er m.a. vegna þess að ég á sæti í hv. allsherjarnefnd þangað sem málinu verður vísað og þar mun ég taka þátt í umræðum og skoðanaskiptum sem þar verða uppi.

Ég get hins vegar alveg upplýst hv. þingmann um að mér finnst það skoðunarvert sem komið hefur fram í umræðunni í dag varðandi þann gerning sem verið er að leggja hér fyrir, að það sé ekki sjálfgefið að ríkið afsali sér landi og réttindum til Landsvirkjunar þar sem Landsvirkjun er einungis í 50% eigu ríkisins. Við eigum að gæta hagsmuna ríkisins og þarna erum við að afsala hluta af réttindum til Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar. Mér finnst við þurfa að skoða það fyrst og fremst áður en við förum að velta því fyrir okkur í ræðustól hvar við eigum að dreifa gullinu sem kann að vera þarna. Ég er ekki tilbúinn að taka þá umræðu í þessum ræðustól að svo stöddu. Aðalatriðið er að við skoðum hvaða verðmæti eru þarna og hvort eðlilegt sé að þau fari með þeim hætti sem frumvarpið gerir ráð fyrir.