132. löggjafarþing — 64. fundur,  10. feb. 2006.

Heimild til að afsala til Landsvirkjunar vatnsréttindum og landi vegna Búrfellsvirkjunar.

456. mál
[14:14]
Hlusta

Hlynur Hallsson (Vg):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um heimild til að afsala til Landsvirkjunar vatnsréttindum og landi vegna Búrfellsvirkjunar. Það hefur komið fram í umræðunni í dag að óbyggðanefnd hefur úrskurðað að ekki hafi verið heimilt að afsala þessu landi til Landsvirkjunar fyrir um 40 árum síðan. Mér þætti því eðlilegra, í staðinn fyrir að heimila hæstv. forsætisráðherra að gera það núna sem ekki mátti gera fyrir 40 árum síðan, að við skoðuðum þessi mál í rólegheitum. Ég vil reyndar setja alla varnagla við að þetta land og þessi réttindi séu lögð upp í hendurnar á fyrirtækinu Landsvirkjun.

Nú er það yfirlýst stefna formanns Sjálfstæðisflokksins, sem er hæstv. utanríkisráðherra um þessar mundir, að selja beri Landsvirkjun einhvern tíma í framtíðinni, í nánustu framtíð, og fyrrverandi ráðherra Sjálfstæðisflokksins, Friðrik Sophusson, sem er núverandi forstjóri Landsvirkjunar, hefur einnig lýst þessum skoðunum sínum oft og ítarlega. Ekki síst þess vegna held ég að það sé í raun og veru mjög alvarlegt að ætla að gefa fyrirtækinu þessi réttindi og þetta land og síðan verði búinn til úr því peningur, vegna þess að við vitum alveg að ef áætlanir ríkisstjórnarinnar ná fram að ganga verður fyrirtækið selt og þá verður þetta land, sem er auðvitað verðmætt land og verður enn þá verðmætara í framtíðinni, selt með.

Í umsögn um frumvarpið frá fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins segir, með leyfi forseta:

„Tilgangur frumvarpsins er öflun lagaheimildar fyrir forsætisráðherra til að afsala tilteknum réttindum til Landsvirkjunar sem ætlun ríkisins var að leggja til fyrirtækisins við stofnun þess árið 1965, en samkvæmt úrskurði óbyggðanefndar um eignarréttindi á Gnúpverjaafrétti og Landmannaafrétti var framsal þessara réttinda þá byggt á vanheimild. Ekki verður séð að samþykkt frumvarpsins hafi áhrif á kostnað eða tekjur ríkissjóðs. “

Þarna vil ég leyfa mér að vera ósammála fjárlagaskrifstofunni vegna þess að ég held að þetta hafi einmitt áhrif á tekjur ríkissjóðs. Eins og hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson sagði áðan er auðvitað hægt að búa til alls kyns reglur um það, t.d. að leigja þetta land til Landsvirkjunar. Reyndar liggur nú fyrir iðnaðarnefnd mikið og skrýtið frumvarp um vatnalög og gerðar hafa verið margvíslegar athugasemdir við það frumvarp og vonandi verður það dregið til baka á þessu þingi. Þetta er auðvitað hluti af því.

Ég vona að allsherjarnefnd taki þetta mál til gaumgæfilegrar athugunar og falli frá þessari heimild til hæstv. forsætisráðherra.