132. löggjafarþing — 64. fundur,  10. feb. 2006.

Aukatekjur ríkissjóðs.

403. mál
[14:22]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það má eiginlega segja að tvö sjónarmið liggi þarna á bak við. Annars vegar er um að ræða pappíra, ríkisborgarabréf, sem hafa ákveðið gildi og þegar um þau er sótt er eðlilegt að tryggt sé að hugur fylgi máli. Eins er um heilmikinn kostnað og utanumhald um þetta að ræða þó að kannski liggi ekki vísindalegir útreikningar að baki.

Hins vegar, eins og fram kom í framsöguræðu minni, eru gjöld fyrir sams konar þjónustu og sams konar pappíra mun hærri í nágrannalöndunum en þau eru hér. Mér finnst ekki óeðlilegt að við tökum mið af því þó að við þurfum ekki endilega að fara nákvæmlega eftir því, enda er það heldur ekki gert í þessu tilfelli heldur er meginhugsunin sem að baki liggur í þeim tveimur atriðum sem ég lýsti .