132. löggjafarþing — 64. fundur,  10. feb. 2006.

Aukatekjur ríkissjóðs.

403. mál
[14:25]
Hlusta

Guðmundur Hallvarðsson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla aðeins að blanda mér í þessa umræðu. Það er rétt sem hæstv. fjármálaráðherra kom inn á að útgáfa á ýmsum skírteinum kosta ákveðna peninga. Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á að hv. þingmaður sé að tala um að þeir sem koma erlendis frá eigi að njóta einhverra fríréttinda umfram íslenska þjóðfélagsþegna.

Það ber dálítið á því, virðulegi forseti, að fólk vilji taka á móti erlendum aðilum með einhverjum sérstökum hætti, gefa þeim meira frírými innan heilbrigðiskerfisins og í þeim skyldum og sköttum sem lagðir eru á landann með einhverju sérkennilegu hugarfari sem við Íslendingar skiljum ekki hvað verið er að fara.

Af þessu gefna tilefni vil ég ítreka það að allir þeir sem hafa hug á að koma til Íslands eru að sjálfsögðu velkomnir, en þeir verða að aðlaga sig að íslenskum staðháttum, íslenskum sköttum og skyldum. Málflutningur Vinstri grænna er allur á sömu lund, það má ekkert að kosta, það má ekkert gera, það á helst að fara til fjalla og tína fjallagrös. Af því eigum við að lifa. (Gripið fram í.) Allir aðrir eiga að lifa í sátt og samlyndi á Íslandi eins og í einhverri kommúnu. Nei, hv. þingmaður, talaðu ekki svona til þjóðarinnar með svona óábyrgu tali.

Ég held ég mæli fyrir munn þjóðarinnar, og tek svo stórt orð í munn, að þeir sem vilja koma til Íslands eru velkomnir en þeir skulu aðlaga sig að íslensku þjóðlífi. Þeir skulu borga sömu skatta og skyldur og við. Við sem búum í þessu landi, og forfeður okkar hafa lagt þar hönd á plóg, höfum byggt upp það heilbrigðiskerfi sem hér er og kostað miklu til, við sem skattborgarar unum því ekki að hingað komi svo erlendir aðilar og taki allt á þurru. Auðvitað eigum við að hjálpa þeim til þess að standa á eigin fótum, en það getur vel verið að þeir aðilar sem sækja um íslenskan ríkisborgararétt séu bara miklu betur á vegi staddir en meðaltekjumaðurinn á Íslandi. Það er því í mörg horn að líta. En að koma með slíkar fullyrðingar að við séum að okra á þeim sem vilja koma til Íslands, að við eigum bara að taka þeim opnum örmum, fagnandi, er náttúrlega málflutningur sem passar ekki og sæmir ekki hér.