132. löggjafarþing — 64. fundur,  10. feb. 2006.

Aukatekjur ríkissjóðs.

403. mál
[14:30]
Hlusta

Guðmundur Hallvarðsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Hlynur Hallsson talar hér um að ég sé að vaða reyk en eigum við kannski að fara í kjarna málsins? Hvað getur hv. þingmaður ímyndað sér að það kosti að skrá nýjan þjóðfélagsþegn sem kemur að utan? Tíu þúsund kr. með öllum þeim kostnaði sem fylgir, útgáfu bréfa og pappíra, vinnulaun o.fl.? Ímyndar þingmaðurinn sér að þetta sé algjört okur? Ef honum finnst það ætla ég að benda honum á að kostnaður við að gefa út vegabréf fyrir Íslendinga er ekkert fjarri þessu til þess að þeir komist á erlenda grund.

Fyrst hv. þingmaður er svona fær og klár með þessar tölur, veit hann þá hvað þetta kostar? Hefur hann hugmynd um það eða um hvaða tölu er hann að tala? Hvað er réttlátt í hans huga að þeir sem vilja gerast íslenskir ríkisborgarar greiði?