132. löggjafarþing — 64. fundur,  10. feb. 2006.

Aukatekjur ríkissjóðs.

403. mál
[14:33]
Hlusta

Guðmundur Hallvarðsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Samgöngunefnd fór nýlega til Keflavíkurvallar til að kynna sér starfsemina þar. Þar kom í ljós að fölsun vegabréfa er að verða meiri háttar vandamál. Það er stór hluti af þeim aukakostnaði sem hefur lagst á vegabréf að reyna að gera þau þannig úr garði að hægt sé að þekkja úr hælisleitendur, sem hafa verið að koma til Íslands, með falsað vegabréf. Þetta hefur náðst að skoða á Keflavíkurflugvelli vegna árvekni þeirra sem þar starfa og vegna sérstaks tæknibúnaðar sem þeir hafa. Það þarf vissulega að beita mjög miklum varúðarráðstöfunum við framleiðslu á einu vegabréfi svo að það verði ekki misnotað.

Við skulum láta kostnað við skráningu á nýbúa hér á Íslandi liggja á milli hluta. En hv. þingmaður kemur hér upp og spyr hæstv. fjármálaráðherra um kostnað en hefur enga hugmynd um þann kostnað sjálfur, talar um að það kosti ekki nema 50 kr. að kaupa eitt blað úti í búð til þess að búa til löggiltan skjalapappír. Þetta er náttúrlega skot út í loftið, það er eitthvert helgarstuð á hv. þingmanni. Hann veit auðvitað að það kostar ákveðið fjármagn og kostar visst að skrá landsmenn eins og hann hefur sjálfur orðið var við.