132. löggjafarþing — 64. fundur,  10. feb. 2006.

Aukatekjur ríkissjóðs.

403. mál
[14:35]
Hlusta

Hlynur Hallsson (Vg):

Frú forseti. Hér erum við að ræða frumvarp til laga frá hæstv. fjármálaráðherra um breytingu á lögum nr. 88/1991, um aukatekjur ríkissjóðs, með síðari breytingum. Ég kom hér upp í andsvörum áðan og lýsti yfir sérstakri ánægju minni með 1. gr. þessara laga, um gjöld vegna mála á grundvelli laga um öflun sönnunargagna vegna ætlaðra brota á hugverkaréttindum, og gerði síðan smáathugasemdir við gífurlega hækkun á umsóknum um íslenskan ríkisborgararétt, sem eiga að hækka úr 1.350 kr. í 10 þús. kr. Síðan spunnust hér umræður um hvort þetta væri sanngjarnt gjald og allt í einu vorum við farin að tala um skatta og skyldur fólks af erlendu bergi brotið sem kemur og sest hér að. Það var jafnvel látið að því liggja að ég og öll Vinstri hreyfingin – grænt framboð, gott ef ekki var, vildi ekki að þetta fólk borgaði skatta og væri undir aðrar skyldur fallið eins og íslenskir ríkisborgarar. En þannig er það nú alls ekki, við viljum einmitt að þetta fólk verði fullgildir ríkisborgarar og borgi hér skatta og skyldur og taki þátt í samfélaginu eins og Íslendingar.

Ég skal nú segja, hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson, að það er ekki svo einfalt að koma hingað og gerast íslenskur ríkisborgari. Það tekur langan tíma, fimm eða jafnvel sjö ár, og á meðan hefur þetta fólk jafnvel ekki kosningarétt. Sumir hafa ekki einu sinni kosningarrétt í landinu sem þeir voru að koma frá. Það mál ætti náttúrlega að taka fyrir, það er að mínu mati fullkomið brot á mannréttindum að hafa ekki leyfi til þess að kjósa neins staðar.

Þegar fólk tekur þá miklu ákvörðun, sem er mjög mikilvæg og góð að mínu mati og ber að fagna, að sækja um íslenskan ríkisborgararétt. (GHall: það eru svo góð stjórnvöld hérna á Íslandi.) Það er nú því miður ekki þess vegna, hv. þingmaður, við þurfum ekkert að tala um arfleifð okkar og fara út í einhverja þjóðernishyggju. Þetta mál er ekkert á þeim nótunum. Þá litlu athugasemd sem ég gerði hér í upphafi gerði ég einfaldlega vegna þess að ég vildi fá skýringu á upphæðinni sem slíkri, aðra skýringu en þá sem kemur fram í frumvarpinu, þ.e. hver upphæðin er á hinum Norðurlöndunum. Ég bjóst við því að hæstv. fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins gæti útskýrt það fyrir mér hver raunverulegur kostnaður er sem liggur þarna á bak við, sundurliðaður. Ég geri mér fullkomlega grein fyrir því að það er ekki bara pappírinn sem þarf að borga, það er vinna þarna á bak við, það þarf að fá umsagnir og eitt og annað. En mér finnst það fullkomlega eðlilegt að fram komi, og ég reikna nú með því að það verði tekið fyrir í nefndinni þegar frumvarpið verður rætt þar, hver raunverulegur kostnaður er. Ég vona að óskað verði eftir sundurliðun á þeim kostnaði.

En þetta snýst auðvitað um, og við vorum einmitt að fjalla um það hér í gær á hinu háa Alþingi, hversu mikilvægt það er að styðja við það fólk sem kemur til landsins, gerist nýir Íslendingar. Margt af því hefur sest að úti á landi, heldur uppi fiskvinnslunni á mörgum stöðum, eykur fjölbreytni, kemur með menningaráhrif sem eru til góðs fyrir íslenskt þjóðfélag og auðgar mannlífið, ekki síst í fámennum sjávarbyggðum úti á landi. Þess vegna finnst mér málflutningurinn í þessari umræðu, frú forseti, dálítið sorglegur. Ég vil ítreka að við eigum að bjóða þetta fólk velkomið. Það er hagur fyrir íslenska þjóð að við verðum fleiri og að við verðum fjölbreyttari (Gripið fram í: Þá er að virkja.) og mannauðurinn fái að njóta sín, frú forseti.