132. löggjafarþing — 64. fundur,  10. feb. 2006.

Aukatekjur ríkissjóðs.

403. mál
[14:43]
Hlusta

Hlynur Hallsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Jónínu Bjartmarz fyrir þessa ábendingu. Hún undirstrikar í raun og veru það sem ég var að tala um í ræðu minni að það tekur langan tíma, ég sagði það einmitt að það tæki allt upp í sjö ár, að fá leyfi til þess yfir höfuð að sækja um íslenskan ríkisborgararétt. Nú getur það vel verið að þarna liggi á bak við margra klukkutíma vinna hjá einstaka embættismönnum ríkisins. Þá vil ég bara fá að vita það hvernig þessi upphæð er til komin. Þetta er mjög góð ábending hjá hv. þingmanni og ég vil þakka sérstaklega fyrir hana, að benda akkúrat á það að þeir sem eru orðnir íslenskir ríkisborgarar eftir langa dvöl hér á landi og að uppfylltum öllum þeim skilyrðum sem þarf til þurfa auðvitað líka að borga vegabréfið sem hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson dró inn í umræðuna áðan.