132. löggjafarþing — 64. fundur,  10. feb. 2006.

Aukatekjur ríkissjóðs.

403. mál
[15:04]
Hlusta

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ljóst að í þessari umræðu verðum við að gæta okkar á því að fara ekki of langt í að rugla saman beinum þjónustugjöldum og hins vegar sköttum sem eru lagðir á með aukatekjum ríkissjóðs. Þeir skattar eða gjöld sem eru lögð á með aukatekjum ríkissjóðs eru tæknilega séð ekki þjónustugjöld en það er þó eðlilegt að með einhverjum sé hætti litið til þess hvort verulegt misræmi er á milli þjónustu þar sem um þjónustu er að ræða og þeirra gjalda sem lögð eru á.

Varðandi ummæli hv. þingmanns um að fyrirtæki sem ekki geti lagt 165 þús. kr. í skráningargjald séu ekki burðug þá er náttúrlega ljóst að sú upphæð er ekki há fyrir þann sem er að fara í stóran atvinnurekstur. Hins vegar fyrir þá sem eru að fara í smáan atvinnurekstur getur þetta verið tilfinnanlegur kostnaður samhliða margvíslegum öðrum kostnaði sem menn þurfa að leggja í við að stofna fyrirtæki. Nú er það oft þannig að menn stofna fyrirtæki í kringum ákveðna hugmynd án þess að hafa mikið fé handa á milli. Öll gjöld og allur sá kostnaður sem getur komið til við stofnun slíkra fyrirtækja getur verið ákveðin hindrun, kannski ekki eina hindrunin, það geta verið mörg önnur atriði sem skipta máli í þessu sambandi. En með því að lækka þröskuldinn að einu leyti teljum við að það sé verið að greiða fyrir nýsköpun, greiða fyrir stofnun nýrra fyrirtækja.

Þegar hv. þingmaður spyr hvort við höfum reiknað út hvað það kosti ríkissjóð að lækka þessi gjöld þá þarf það ekkert endilega að vera að heildartekjur af svona gjaldtöku minnki þó að gjaldið sé lækkað. Það er nú kunnugt í ýmsum viðskiptum að stundum geta menn náð til sín mun fleiri viðskiptavinum með því að lækka kostnaðinn, með því að lækka gjöldin. Með því að hafa lægra verð geta menn náð til sín fleirum þannig að það (Forseti hringir.) getur vel farið svo að þetta leiði til tekjuauka fyrir ríkissjóð.