132. löggjafarþing — 64. fundur,  10. feb. 2006.

Aukatekjur ríkissjóðs.

403. mál
[15:08]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Frú forseti. Mér þykir alltaf frekar einkennilegt þegar hv. þingmenn gera sér upp kunnáttu- og þekkingarleysi í ræðustól. Ef ég man rétt, var hv. þm. Jón Gunnarsson í rekstrarráðgjafarstörfum hjá ráðgjafarfyrirtæki áður en hann tók sæti á Alþingi þannig að ég er alveg sannfærður um að hann hefur einhvern tíma á þeim ferli komið að því að tímamæla störf hjá fyrirtækjum í þeim tilgangi að leggja mat á kostnað og jafnvel til þess að taka ákvarðanir um hvernig ætti að innheimta tekjur fyrirtækisins. Ef hann hefur ekki komið að því hlýtur hann að hafa komið að því að tímamæla sjálfan sig vegna þeirra reikninga sem hann hefur lagt fram.

Ég held þess vegna að það hljóti að vera þingmanninum alveg augljóst að þær tölur sem hér er verið að leggja fram með þeim skýringum sem fylgja í greinargerð og skýringum með einstökum greinum og því sem hefur komið fram hjá mér fyrr í dag, sem er í samræmi við það sem er í frumvarpinu, að hér er frekar um það að ræða að gjöldin séu lægri en kostnaðurinn en hitt. Ef hann telur að það sé lægri kostnaður fólginn í því að senda umsókn um ríkisborgararétt til stofnana en 2.500 kr. þá er sjálfsagt að skoða það í nefndinni og sjálfsagt að fulltrúar ráðuneytisins geri grein fyrir þeim málum þar.

Svo ber auðvitað að hafa það í huga líka að hluti af umsóknum um ríkisborgararétt kemur hingað inn á Alþingi og fer hér sem þingsályktunartillaga í gegnum tvær umræður og til nefndar. Auðvitað er misjafnt hversu langar umræðurnar eru en það væri athyglisvert að tímamæla þá umræðu hér og sjá hvað hún kostar. (Forseti hringir.) Þar sjáum við, frú forseti, líka kostnað í þessu samhengi