132. löggjafarþing — 64. fundur,  10. feb. 2006.

Þjóðarblóm Íslendinga.

455. mál
[15:17]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Allir dagar eiga sína hörku og sína fegurð. Hér er ég kominn til að mæla fyrir fallegu blómi sem ég vil og þjóðin vill að sé gert dálítið hátt undir höfði. En hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir eftirfarandi tillögu til þingsályktunar um þjóðarblóm Íslendinga sem flutt er á þingskjali 679, 455. mál þingsins.

Alþingi ályktar að holtasóley, Dryas octopetala á latneska málinu, verði þjóðarblóm Íslendinga. Á árinu 2004 skipaði ég starfshóp í samvinnu við menntamálaráðherra, samgönguráðherra og umhverfisráðherra sem hafði það hlutverk að standa að vali á þjóðarblómi Íslendinga. Starfshópinn skipuðu Níels Árni Lund formaður, tilnefndur af landbúnaðarráðherra, Vilhjálmur Lúðvíksson, tilnefndur af menntamálaráðherra, Helga Haraldsdóttir, tilnefnd af samgönguráðherra, og Ingibjörg Ólafsdóttir, tilnefnd af umhverfisráðherra.

Tilgangur verkefnisins var að velja blóm sem gæti haft táknrænt gildi og þjónað hlutverki sem sameiningartákn. Blóm sem nýta mætti í kynningar- og fræðslustarfi, bæði hér á landi og á erlendum vettvangi. Sömuleiðis var markmið verkefnisins að skapa umræður um blóm og gróður til að auka samstöðu um gróðurvernd. Að fólk hafi meiri áhuga á náttúrunni og gróðurvernd og kynnist náttúrunni og læri að þekkja blóm síns lands.

Rétt er að taka fram að oftar en einu sinni hafa komið fram ábendingar um að Íslendingar velji sér þjóðarblóm. Að þessu sinni var það frú Ásdís Sigurjónsdóttir kennari sem átti hugmyndina, en áður hafði m.a. dr. Sturla Friðriksson vakið athygli á málinu og þá bent á holtasóleyjuna sem merkisbera. Leitað var umsagna nokkurra aðila á verkefninu og í framhaldi af því var Landvernd falin framkvæmd þess. Erindi var sent í grunnskóla landsins þar sem vakin var athygli á vali á þjóðarblóminu og hvatt til þátttöku nemenda. Margar tillögur bárust og voru þær kynntar almenningi á veggspjöldum í anddyri Kringlunnar í Reykjavík haustið 2004. Jafnhliða hófst viðamikil kynning á verkefninu meðal almennings og óskað var eftir tillögum. Í framhaldi af henni voru valin 20 blóm í úrtaki og þau kynnt á veggspjöldum, á vefsíðum og í fjölmiðlum þar sem einnig birtust allmargar greinar einstaklinga um þjóðarblóm og mismunandi skoðanir þeirra á vali á blómi. Unnið var úr innsendum tillögum og valin þau sjö blóm sem flestir tilnefndu. Þau voru kynnt rækilega á opinberum vettvangi og síðan fór fram skoðanakönnun dagana 1. til 15. október sem landsmenn voru hvattir til að taka þátt í. Skoðanakönnunin var opin öllum þeim sem höfðu íslenska kennitölu. Til að auðvelda fólki kosningu var opnað fyrir netkosningu hjá Landvernd og Morgunblaðinu og auk þess gafst fólki kostur á að senda inn atkvæðaseðla. Skoðanakönnunin fór fram á netinu og með póstlögðum atkvæðaseðlum sem birtust í Morgunblaðinu. Þátttakendum gafst kostur á að forgangsraða blómunum sjö með því að skipa þeim í sæti 1.–7. Þátttakendur voru 7.025 og gildir seðlar voru 6.919. Úrslit urðu þau að holtasóley fékk flest stig landsmanna, samtals 21.943 stig. Þá fylgdi nefndin þeirri niðurstöðu sem var kynnt ríkisstjórn og síðan við sérstaka athöfn í Salnum í Kópavogi föstudaginn 22. október árið 2004 að viðstöddum forseta Íslands.

Nú kann einhver að spyrja: Hvers vegna velja eitt blóm sem þjóðarblóm? Því er m.a. til að svara að ætlunin er að þjóðarblómið verði eitt af táknum Íslands, verði smám saman þekkt um allan heim að einhverju leyti svipað og þjóðfáni og þjóðsöngur, þó með öðrum hætti sé, og blómið eða tákn þess í hvers kyns kynningar- og markaðsstarfi innan lands sem erlendis. Gaman er að geta þess að nú þegar er farið að framleiða vörur með þessu fallega blómi á, sérstaklega auglýstar með holtasóleyjunni sem þjóðarblómi Íslendinga. Þannig að ýmsir aðilar hafa þegar nýtt sér þjóðarblómið til að prýða fyrirtæki sitt eða vörur og þykir vænt um þjóðarblómið.

Í annan stað má benda á að fjarri fer því að við séum eina landið í heiminum sem velur sér þjóðarblóm. Samkvæmt gögnum sem Landvernd stóð fyrir að útvega um þetta efni kemur fram að þjóðarblóm eiga sér langa sögu. Má þar nefna rósina sem tilgreind er sem þjóðarblóm Englendinga langt aftur í aldir. Önnur hafa hlotið viðurkenningu meðal almennings þó þau hafi ekki verið formlega samþykkt af stjórnvöldum og eru þekkt sem þjóðarblóm viðkomandi lands eða þjóðar. Ein þekktasta jurtin sem tilgreind er sem þjóðarblóm er laufblað af hlyni sem finna má í þjóðfána Kanada. Tilurð þess á sér langa sögu en það var formlega fest í sessi á borgarafundi sem haldinn var í Toronto árið 1860. Grannar okkar í Noregi eiga beitilyng og klettafrú sem þjóðarblóm. Beitilyng var valið með skoðanakönnun sem Nitimen, einn vinsælasti útvarpsþáttur norska útvarpsins, stóð að árið 1968. En klettafrúna völdu grasafræðingarnir á þingi sínu á millistríðsárunum. Hvorugt þessara blóma hefur fengið staðfestingu Stórþingsins, hugsanlega vegna þessa ágreinings almennings og fræðimanna. Finnar hafa þrívegis staðið fyrir könnun meðal almennings um val á þjóðarblómi. Tvívegis höfðu opinberir aðilar forgöngu um málið en ekki fékkst niðurstaða þar sem nefndin sem sá um málið var ekki sammála niðurstöðu skoðanakönnunarinnar. Í þriðja sinn stóðu frjáls félagasamtök að skoðanakönnun og hefur niðurstaða þeirrar könnunar, lilja vallarins, verið færð í bækur sem þjóðarblóm Finna.

Margar þjóðir virðast einnig eiga einkennisblóm fyrir t.d. hvert fylki, samanber fylki Bandaríkjanna sem hafa með formlegum hætti samþykkt sitt fylkisblóm. Fleiri en eitt fylki í Bandaríkjunum eru með rós sem fylkisblóm auk þess sem rósin virðist vera skráð sem þjóðarblóm þeirra.

Til að staðfesta enn frekar að holtasóley sé þjóðarblóm Íslendinga er talið rétt af þeim sem að þessu komu að Alþingi álykti þar um og því er þessi þingsályktun lögð fram. Þjóðarblómið getur nýst okkur í mörgum tilfellum. Það hefur sigrað í lýðræðislegri umræðu og verið valið sem slíkt af almenningi, eins og ég hef hér rakið í ræðu minni. Þjóðarblómið á sér vissulega marga aðdáendur. Hér situr hæstv. forseti Jóhanna Sigurðardóttir, sem eitt sinn í uppreisnarhug stofnaði nýjan flokk og vildi búa til sameiningu um þann flokk. Hér áðan, áður en ég fór í ræðustólinn, sýndi hún mér hausinn á gömlu Þjóðvakablaði, en Þjóðvaki hét flokkurinn hennar. Og hér sjáum við hvað þetta hugsjónaríka fólk í Þjóðvakanum hefur verið á undan sínum tíma því hér er holtasóleyin sjálf höfð sem sameiningartákn þessa flokks (Gripið fram í.) sem merki Þjóðvaka á þessum tíma.

Ég vil óska hæstv. sitjandi forseta til hamingju með þá framsýni og ég get auðvitað sagt hér að þótt tími Þjóðvaka sé liðinn þá er tími holtasóleyjarinnar kominn. Til hamingju með holtasóleyna og ég vona að hv. þingmenn taki þessari þingsályktun og þessu lýðræðislega starfi vel. Og að lokinni þessari umræðu legg ég til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. landbúnaðarnefndar.