132. löggjafarþing — 64. fundur,  10. feb. 2006.

Þjóðarblóm Íslendinga.

455. mál
[15:30]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil nú segja að þetta blóm er auðvitað ekki arfleifð Þjóðvaka, enginn á neitt blóm. Mér finnst t.d. hin rauða rós Samfylkingarinnar flott tákn fyrir stjórnmálaflokk alveg eins og ax Framsóknarflokksins er flott. Fálkinn er sá sem flýgur hátt og er fagur hjá Sjálfstæðisflokknum. (Gripið fram í.) Enginn á neitt í þessu. En misráðið í sjálfu sér, það finnst mér alls ekki. Þjóðvaki er því miður ekki til lengur en ég hef auðvitað lýst hér aðdáun minni á smekkvísi sitjandi hæstv. forseta á þeim tíma þegar hún var formaður í þeim flokki. Hún valdi þetta blóm og hafði fullan rétt til þess. Það sýnir að blómið hefur vakið athygli. En fyrst og fremst er ég að hlýða lýðræðislegri könnun sem fór fram meðal þjóðarinnar þar sem þetta þjóðarblóm varð fyrir valinu. Ég hygg að hv. þingmaður hafi nefnt réttilega að gleymmérei kom mjög til greina í þessu vali alveg eins og blágresi, sem var mjög ofarlega og líklega í öðru sæti, ef ég man þetta rétt. Við tengjum því þetta fallega blóm fyrst og fremst þjóðinni og smekkvísi hennar, landinu og náttúrunni, en minnumst þess með glöðum huga að smekklegir stjórnmálamenn Þjóðvaka höfðu valið sér það sem flokksmerki á sínum tíma. Við því er ekkert að segja og við erum svo ágætir vinir, ég og hæstv. forseti, að það fer ekki einu sinni í taugarnar á mér að henni hafi dottið það í hug, ég hafði ekki hugmynd um það frekar en þjóðin. Hún sagði mér frá því áður en ég fór í ræðustólinn og ég gladdist yfir því og vildi segja frá því hér í ræðu minni.