132. löggjafarþing — 64. fundur,  10. feb. 2006.

Þjóðarblóm Íslendinga.

455. mál
[15:32]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð að segja að þetta er vel valið blóm og mikið sameiningarblóm eins og hefur sýnt sig þar sem þetta blóm, holtasóley, var merki Þjóðvaka. Ef Þjóðvaki hefði ekki verið til hefðu jafnaðarmenn aldrei sameinast í Samfylkingunni þannig að það má segja að þetta sé sannkallað samfylkingarblóm.

Hæstv. ráðherra sagði að ýmsir aðilar hefðu nýtt sér þjóðarblómið og þætti vænt um það. Okkur jafnaðarmönnum þykir náttúrlega vænt um þetta ágæta blóm sem mun örugglega eiga sér og á sér þegar merka sögu sem þjóðvakablómið. Ég segi bara eins og þeir segja í stjörnuleitinni: Þjóðin hefur valið og hún er sammála Jóhönnu Sigurðardóttur sem valdi þetta ágæta blóm sem merki fyrir sinn góða flokk, Þjóðvaka. Og ég tek undir með hæstv. landbúnaðarráðherra, þar sem hann mælir með því að þetta verði okkar þjóðarblóm, og ég segi bara: Til hamingju með þjóðvakablómið og þjóðarblómið holtasóleyna.