132. löggjafarþing — 64. fundur,  10. feb. 2006.

Þjóðarblóm Íslendinga.

455. mál
[15:33]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka þessar glæsilegu undirtektir og það er skemmtilegra þegar þingmenn eru svona hamingjusamir en að þeir standi hér í háarifrildi eins og oft gerist. Þetta er því hamingjustund.

Ég vil segja frá því að ég hef t.d. þegar verið við opnun verslunar í Reykjavík sem hefur gert þjóðarblómið holtasóleyna að fallegu blómi á sængurveri og koddaveri og trúir því að menn séu nær náttúrunni, eignist fallegri drauma við að sofa við sængurver og koddaver sem merkt er náttúrunni með svo litríkum hætti í gegnum þetta þjóðarblóm. Ég held að við þurfum engar áhyggjur að hafa af því og það er allt í lagi þó að þetta rifji upp gamlar og góðar pólitískar minningar, eins og stríðsár hreyfingarinnar Þjóðvaka sem varð hér til í miklum pólitískum hita er jafnaðarmenn klofnuðu. Kannski var það þjóðarblómið sem leiddi þá saman, þessi mörgu blöð á fallegum stilki og þessi fallegi litur. Ekki ætla ég að efast um það að stundum er það fegurðin og litur blómanna sem mildar stríð og erfiðleika og gerir það að verkum að fólk sem á samleið nær saman og ég óska bara jafnaðarmönnum til hamingju með það.

En við leyfum nú þjóðinni að eiga þetta blóm, hvar í pólitík sem hún verður, en ég hef þegar lýst þakklæti mínu til formanns Þjóðvakahreyfingarinnar fyrir að hafa verið svona smekkleg og í rauninni á undan sínum tíma. Hennar tími kom því fyrir rest.