132. löggjafarþing — 64. fundur,  10. feb. 2006.

Þjóðarblóm Íslendinga.

455. mál
[15:36]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Hér er komið að skemmtilegu máli í dagskránni sem sýnir að við erum ekki alltaf að pexa um einhver mál sem varða fjárhag ríkisins, samgöngur eða byggðamál eða hvað má kalla það, heldur tökum við líka fyrir mál eins og þetta, tillögu til þingsályktunar um þjóðarblóm Íslendinga.

Ég vil fá að lýsa því yfir að mér finnst þetta í raun og veru hið besta mál. Ég fylgdist með því þegar það ferli átti sér stað þegar verið var að velja þetta blóm. Það var m.a. gert fyrir tilstilli Landverndar, þeirra merku samtaka, sem ég er félagsmaður í og er stoltur af. Það eru ákaflega merk samtök sem vilja stuðla að almennri náttúruvernd og sjálfbærri nýtingu lands og sjávar, aukinni útivist, og berjast gegn hvers konar mengun og umhverfisspjöllum en stuðla jafnframt að aukinni þekkingu og fræðslu um náttúru og umhverfi landsins. Ég tel að það að velja þjóðarblóm hafi á margan hátt verið mjög vel heppnuð aðgerð einmitt til að vekja athygli á flóru landsins sem er, þó að okkur þyki landið kannski stundum frekar hrjóstrugt, furðulega rík af ótal tegundum gróðurs, ekki síst blóma eins og þjóðarblómsins, þ.e. holtasóleyjarinnar.

Hæstv. landbúnaðarráðherra fór svo sem ágætlega í gegnum hvað vakað hefði fyrir mönnum eða þeim sem stóðu að því að finna þetta blóm, að hér væri verið að reyna að finna eins konar tákn sem væri hægt að nota í ýmsu samhengi. Ég vil bara fá að geta þess að önnur blóm voru frambjóðendur í þessari kosningu, til að mynda blágresi, blóðberg, geldingahnappur, gleymmérei, hrafnafífa og lambagras. En það var holtasóleyin sem hafði vinninginn og mér finnst það í sjálfu sér allt í lagi.

Það mætti kannski varpa upp þeirri hugmynd hvort ekki væri tilefni til þess að svona val á þjóðarblómi færi fram á segjum tíu ára fresti, að þetta yrði ekki varanlegt heldur mundum við hafa svona val á þjóðarblómi með ákveðnu millibili einmitt til þess að ýta undir áhuga almennings á flóru landsins. Mér þætti það vera hugmynd sem mætti alveg skoða. Það hafa líka komið fram hugmyndir um að velja landshlutablóm og mér finnst það heldur ekki illa til fundið að Suðurland, Austurland, Norðurland, Vestfirðir og Vesturland fái hvert um sig sitt eigið einkennisblóm sem hægt væri að nota til að mynda í ýmiss konar kynningarstarfi. Það er um margar fallegar tegundir að velja þó að holtasóleyin hafi verið kjörin þjóðarblóm Íslendinga núna og eftir meðferð landbúnaðarnefndar verður, vænti ég, þessi litla fjölæra planta gerð að þjóðarblómi Íslendinga. Ég hygg að þessi litla þingsályktunartillaga muni fá mjög góðar móttökur í landbúnaðarnefnd og læt ég þar með máli mínu lokið um þessu litlu en skemmtilegu tillögu.